Biskup fer gagnrýnum orðum um þungunarrofsfrumvarp

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands segir frumvarp um þungunarrof bera með sér róttækar breytingartillögur sem séu mjög umhugsunarverðar. Í umsögn hennar við frumvarpið kveðst hún styðja þann hluta frumvarpsins að konur taki sjálfar hina erfiðu ákvörðun sem sé til umfjöllunar, en gagnrýnir breytta hugtakanotkun og rýmri tímaramma til framkvæmdar þungunarrofs.

„Hið nýja hugtak vísar á engan hátt til þess lífs sem sannarlega bærist undir belti og er vísir að nýrri mannveru,“ segir Agnes um breytta hugtakanotkun, úr fóstureyðingu í þungunarrof. „Það er misvísandi að nota þetta nýja hugtak í þessu viðkvæma samhengi, þar sem hugtakið vísar ekki til þessa vaxandi nýja lífs.“

Agnes segir tillögurnar raska því jafnvægi sem fundist hafi milli ólíkra sjónarmiða í samfélaginu um rétt verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs með rýmkun tímarammans til þungunarrofs úr 12 vikum í 22.

„Samfélag okkar hefur á undanförnum áratugum fundið jafnvægi á milli hinna ólíku sjónarmiða um rétt hinnar verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs, þrátt fyrir þær mótsagnir sem því fylgir. Þar sem 12 vikna tímaramminn hefur verið studdur sjónarmiðum heilbrigðisvísinda, mannréttinda og í framkvæmd sem bestri þjónustu félagsráðgjafa og annarra fagstétta við þær faglegustu aðstæður sem völ er á. Hinar nýju tillögur raska því jafnvægi, að mínu mati, og vekja jafnvel upp á ný grundvallarspurningar, sem við ættum auðvitað alltaf að spyrja okkur að varðandi mannhelgina og framgang lífs hér í heimi,“ segir í umsögn biskups.

„Ég óskaði eftir því við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin myndi vinna álit á frumvarpinu út frá þeim forsendum sem stofnunin byggir á. Ég vona að Alþingi berist umsögn um frumvarpið frá Siðfræðistofnun. Réttindabarátta kvenna heldur áfram og vil ég taka þátt í henni og leggja henni lið, enn eigum við konur langt í land. Ég efast stórlega um að þetta frumvarp hafi eitthvert vægi í þeirri baráttu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert