Steinunn Þórðardóttir læknir er þakklát fyrir síðdegisbirtuna. „Eftir að hafa búið í Svíþjóð í mörg ár þar sem birtir fyrr en hér á morgnana í skammdeginu en dimmir hins vegar mjög snemma seinnipartinn þá vel ég frekar íslensku klukkuna eins og hún er núna.“
Steinunn veit að það eru ekki allir sammála henni en eftir að hafa prófað hvort tveggja er hún á þessari skoðun. „Það munar alveg rosalega um þessa birtu seinnipartinn fyrir geðheilsuna í svartasta skammdeginu,“ segir Steinunn, sem bjó í Stokkhólmi í sex ár.
„Ég fann meira fyrir skammdeginu í Svíþjóð en hér og fann mun á mér til hins verra. Þetta myrkur dregur mann svo niður. Mér fannst gott að koma heim í frí um hávetur,“ segir hún og þó að Stokkhólmur sé sunnar og það birti fyrr hafi hún fengið meira út úr því að vera hér. „Þetta er mjög ákveðin upplifun.“
Steinunn á þrjú börn og finnst mikilvægt að börnin geti leikið sér í birtu seinnipartinn eftir skóla. ,,Það er líka betra að þau séu að labba í birtu í frístundir,“ segir hún.
„Ég bjó í blokk í Svíþjóð þar sem flestir aðrir íbúar voru Svíar en það voru líka nokkrar aðrar íslenskar fjölskyldur þarna. Alltaf voru það íslensku fjölskyldurnar sem voru vakandi til miðnættis,“ segir Steinunn, sem sá ljósin í gluggunum hjá löndum sínum. „Við fórum ekki fyrr að sofa í Svíþjóð en á Íslandi og það sama á við um flesta Íslendinga sem við þekkjum.“
Steinunn segist vera manneskja sem sé alveg til í breytingar svona almennt en henni hrjósi hugur við tilhugsuninni um að klukkunni verði seinkað hér. „Það er vont að fá aldrei tíma fyrir sjálfan sig í birtu.“
Viðtalið birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og er hluti af stærri umfjöllun um klukkuna.