Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi sinnti nokkuð óvenjulegu verkefni í gær þegar henni barst útkall um að dráttarvél hefði fallið niður um ís í Laxárvatni. Ekki urðu slys á fólki, en bóndanum sem var á ferð á dráttarvélinni tókst að komast út úr henni áður en hún sökk.
„Fór vaskur hópur félaga með tæki og tól á staðinn til að byrja aðgerðir. Þegar búið var að meta umfang aðgerðarinnar var brugðið á það ráð að fá lánaða beltagröfu sem stóð við Laxárvirkjun,“ segir í færslu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar sem þakkar Steypustöð Skagafjarðar kærlega fyrir lánið á vélinni.
„Án hennar hefði aðgerðin tekið mikið lengri tíma með keðjusögum o.fl. Þetta fór allt eins vel og það gat farið og er dráttarvélin nú komin inn á verkstæði í afvötnun og þurrkun.“