Tryggingamiðstöðin þarf að greiða karlmanni sem lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir tæplega sjö árum rúmlega 30 milljónir króna í skaðabætur að viðbættum vöxtum. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur á föstudag en héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu í apríl á síðasta ári.
Maðurinn fluttist til Íslands fyrir 13 árum að því er kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og varð slysið þegar maðurinn var við störf í frystigeymslu fyrirtækis sem hann starfaði hjá. Fóturinn klemmdist milli tölvustýrðs hillurekka og lyftara og náði maðurinn ekki að losa sig sjálfur heldur þurfti hann að bíða í nokkrar mínútur uns samstarfsmaður hans kom honum til bjargar eftir að sá sem í slysinu lenti náði að láta vita af sér með símtali.
Slysið varð í maí árið 2012 og fram kemur í dóminum að maðurinn hefði reynt að vinna í hálfu starfi frá júní sama ár og fram í nóvember, en síðan þá hefur hann verið alveg óvinnufær. Þá hefur hann gengist undir margar læknismeðferðir en án teljandi árangurs.