Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirgefið grunnstefnu sína

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir sér alltaf þykja vænt um sinn gamla flokk, Sjálfstæðisflokkinn, en telur flokkinn þó hafa yfirgefið grunnstefnu sína. Þorgerður var gestur Páls Magnússonar í umræðuþættinum Þingvöllum á K100 í morgun. Þorgerður sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1999 til 2013.

Í þættinum sagði Þorgerður Katrín eðlisbreytingu hafa átt sér stað á Sjálfstæðisflokknum þann tíma sem hún tók sér hlé frá stjórnmálunum, 2013 til 2016, og sú breiða skírskotun sem flokkurinn hafði áður væri ekki sú sama. Nefndi hún í því sambandi stefnu flokksins í utanríkismálum, gjaldeyrismálum, landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum.

„Ég hugsaði að ef ég færi aftur í pólitík færi ég ekki endilega að gefa mikinn afslátt á því sem maður stendur fyrir,“ sagði Þorgerður um það hvers vegna hún valdi Viðreisn en ekki sinn gamla flokk. Þorgerður segist ekki hafa ætlað sér aftur í stjórnmálin eftir að hún kvaddi þann vettvang. „Kannski var ég aldrei raunsæ gagnvart sjálfri mér,“ sagði Þorgerður um ákvörðun sína um að ætla að kveðja þann vettvang fyrir fullt og allt.

„Eftir á að hyggja var skynsamast fyrir sjálfa mig og fjölskylduna að hætta í pólitík og fara í sjálfsrýni. Það var erfiður tími að fara í gegnum alls konar hluti. Þó að þeir hafi verið erfiðir var það líka nauðsynlegt,“ segir Þorgerður. Nefnir hún að sem dæmi vilji hún að fólk njóti meira sannmælis í stjórnmálum. Sagði hún að þótt það væri auðvelt að vera á móti ríkisstjórninni vilji hún ekki fara í hefðbundnar skotgrafir.

Mótmælin fyrir utan heimilið tóku á fjölskylduna

Í fjármálahruninu 2008 fóru fram mótmæli fyrir utan heimili Þorgerðar sem þá var varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður segir mótmælin hafa haft áhrif á sig og fjölskylduna, en hún hafi þó skilning á reiðinni sem ríkti í samfélaginu á þessum tíma.

„Varnarleysið er tilfinning sem ég vil aldrei finna aftur, að geta ekki passað upp á börnin,“ segir Þorgerður um mótmælin. „Í lýðræðisríki hefurðu rétt til mótmæla, en líka til friðhelgi heimilis,“ sagði Þorgerður. Reiðin og að hluta til óbilgirnin hafi að mörgu leyti verið skiljanleg en heimili fólks er skjól allrar fjölskyldunnar, þar á meðal barnanna.

„Fólk veit að ég á t.a.m. eitt fatlað barn. Hún sturlast þarna inni,“ segir Þorgerður og útskýrir að dóttir hennar taki öllu óvæntu sem þessu illa. Hún segir að tekist hafi að koma í veg fyrir að synir hennar lentu í mótmælendunum. „Strákarnir voru að koma heim, við forðuðum þeim frá því að sjá þetta reiða fólk sem var mjög agressíft,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert