Utanríkisráðuneytið mun kalla eftir upplýsingum um mál Murat Arslan, formanns dómarafélags Tyrklands, sem var dæmdur í tíu ára fangelsi árið 2017.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti fund með sitjandi og fráfarandi formanni Dómarafélags Íslands í gær, þar sem þau Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Skúli Magnússon fóru þess á leit að Tyrkir yrðu krafðir um svör.
Utanríkisráðherra staðfesti í samtali við mbl.is að ráðuneytið muni kalla eftir upplýsingum um málið.
„Við höfum fylgst með stöðu mannréttindamála í Tyrklandi, sérstaklega í kjölfar valdaránstilraunarinnar 2016, og gagnrýnt stjórnvöld og komið skilaboðum okkar á framfæri, margoft á tvíhliða fundum og sömuleiðis í gegn um Mannréttindaráðið, Evrópuráðið og ÖSE,“ segir Guðlaugur Þór.
Arslan var dæmdur í tíu ára fangelsi árið 2017, skömmu eftir að hann sendi alþjóðasamtökum dómara þakkarbréf fyrir veittan stuðning, en að sögn Ingibjargar og Skúla virðist hann það sér eitt til saka unnið að vera virkur í alþjóðasamfélagi dómara, sem mælist ekki vel fyrir í Tyrklandi.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa staðið í ströngu síðustu ár við að skipa nýja menn í stöður í dómskerfi landsins, og hátt í 3.000 fyrrverandi dómarar og saksóknarar sitja á bak við lás og slá. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að dómarafélag tyrkneskra dómara séu hryðjuverkasamtök og stofnað nýtt félag, sem alþjóðasamtök dómara viðurkenna ekki.
Dómarar hliðhollir stjórninni voru því að verki þegar Arslan var dæmdur í fangelsi, og segir Skúli þá ekki standa undir nafni sem sjálfstæðir dómarar, enda séu þeir komnir undir framkvæmdarvaldið.