Var að njóta snjókomunnar

Það bætti enn frekar í snjóinn í gærkvöldi og nótt.
Það bætti enn frekar í snjóinn í gærkvöldi og nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst ábending um konu sem lægi í annarlegu ástandi í snjóskafli í hverfi 112 um klukkan 23 í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að konan var alls ekki í vímu heldur var hún að slaka á í snjóskaflinum og njóta snjókomunnar.

Annað var uppi á teningnum um manneskju sem gat sér enga björg veitt í hverfi 101 klukkutíma fyrr en lögreglan þurfti að aðstoða hana við að komast leiðar sinnar. 

Tveir voru handteknir vegna líkamsárásar í hverfi 109 á áttunda tímanum í gærkvöldi en ekki kemur frekar fram um árásina í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Um klukkan 23:30 var óskað eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja mann sem var í annarlegu ástandi á slysadeildinni í Fossvogi og skömmu eftir miðnætti barst lögreglu tilkynning um fjóra menn sem voru ógnandi á skemmtistað í 101. Lögreglan ræddi við þá og héldu mennirnir sína leið eftir það.

Um hálfeitt í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að veitingahúsi í hverfi 101 vegna fimm manna sem voru í annarlegu ástandi og til vandræða. Mennirnir voru farnir á brott er lögreglu bar að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert