„Frávísunartillagan var ekki stuðningsyfirlýsing við nefndarformennsku Bergþórs Ólasonar,“ segir í fréttatilkynningu frá þingflokksformönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks að vísa frá tillögu um að láta Bergþór víkja úr embætti sem formaður umhverfis- og samgöngu nefndar.
„Frávísunartillaga sem var lögð fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun sneri einungis að tillögu þess efnis að setja ætti af formann nefndarinnar. Ekki lá fyrir tillaga um nýjan formann. Óvissa var um hvort tillagan væri tæk,“ kemur fram í tilkynningunni.
Fyrr í dag útskýrði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hvers vegna hann taldi rétt að vísa tillögu um brottrekstur Bergþórs frá.
„Þetta er bara ekki mál sem leysist á vettvangi nefndarinnar. Þetta þarf að leysa á vettvangi þingflokksformanna. Þetta byggir á samkomulagi þingflokka og það er ekki nefndarinnar að taka á því máli,“ sagði hann.
Þingflokksformennirnir taka undir skýringar Jóns í tilkynningu sinni.
„Formennska í umhverfis- og samgöngunefnd er hluti af samkomulagi milli meirihluta og minnihluta. Samkvæmt samkomulagi þingflokksformanna í kjölfar þingkosninga 2017 féll formennska í þremur nefndum í skaut stjórnarandstöðuflokka og formennska í fimm nefndum í skaut stjórnarflokkanna.“