Talsvert er eftir af því ferli sem þarf til ef innheimta skal veggjöld til þess að flýta uppbyggingu samgöngumannvirkja. Fyrst mun þingið afgreiða samgönguáætlun og mun ráðherra kynna frumvarp á vorþingi sem veitir heimild til þess að fara umrædda leið, segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Verði frumvarp ráðherrans samþykkt í vor mun síðan þurfa að endurskoða samgönguáætlun með tilliti til þeirra heimilda til þess að flýta framkvæmdum með innheimtu veggjalda. Sú vinna mun geta farið fram í haust að sögn Jóns.
„Með veggjöldunum mun losna um fjármuni sem gerir okkur kleift að flýta verkefnum og munum við þá vinna að því að ýta verkefnum sem eru aftar í samgönguáætlun framar,“ segir þingmaðurinn.
Enn er eftir að útfæra hvernig sé hægt að útfæra innheimtuna meðal annars með tillit til nýrrar ríkisfjármálaáætlun sem verður afgreidd í vor. Þá munu útfærsluatriðin einnig ráða för um hvort þurfi heimildir í fjárlögum til þess að hefja innheimtu.