Álagið sem fylgir því að vera í háskólanámi getur verið mikið og samkvæmt rannsókn Ingvars Eysteinssonar, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Samkvæmt rannsókn hans segja 9,3% nemendur HR kvíða trufla daglegt líf og 10,3% segja þunglyndi hafa áhrif á daglegt líf þeirra.
Tilgangur rannsóknarinnar er að meta einkenni kvíða- og þunglyndis nemenda við Háskólann í Reykjavík. Til að afla upplýsinga var könnun sem saman stóð af sjálfsmatskvörðum og bakgrunnsspurningum lögð fyrir samtals 671 nemanda, úr öllum deildum HR á síðustu önn, haustönnina 2018.
Könnunin var lögð fyrir í tíma og var svarhlutfall hátt. Auk viðurkenndra spurningalista fyrir einkenni kvíða og þunglyndis var hannaður spurningalisti fyrir mat á truflun í daglegu lífi af völdum kvíða, þunglyndis og streitu. Á þeim lista er truflun vegna kvíða, þunglyndis og streitu við nám, félagslíf og áhugamál metin.
Niðurstöður gefa til kynna að einkennalistar einir og sér gefa ekki nógu góðar upplýsingar við mat á algengi geðrænna vandamála. Álagið sem fylgir því að vera í háskólanámi getur verið mikið og sjálfsmatskvarðar fyrir ákveðið vandamál (þunglyndi eða kvíða) geta verið næmir fyrir slíku álagi,- sem og álagi af öðrum völdum. Samkvæmt okkar rannsókn er fjöldi nemenda sem lýsa truflun í daglegu lífi vegna kvíða 9,3% og 10,3% vegna þunglyndis, segir Ingvar. Hann tekur hins vegar fram að í einhverjum tilvikum geti verið um sömu einstaklinga að ræða, það er fólk sem finnur bæði fyrir kvíða og þunglyndi.
„Þó svo að áætlaður fjöldi nemenda sem glími við þessi vandamál sé ekki eins hár og fram hefur komið í eldri rannsókn (meistaraverkefni Andra H. Oddssonar, 2017), er ástæða til að taka stöðuna alvarlega.
Í ljósi árangurs þeirra raunprófuðu meðferðarúrræða sem til eru, teljum við ástæðu til að leggja kapp á að auka aðgengi að slíkum úrræðum. Við teljum enn fremur að nemendur, skólar og samfélagið í heild hafi hag af því að þessi vandamál séu tekin alvarlega. Vonir standa til að ávinningur af aukinni þekkingu á birtingarmynd geðræns vanda háskólanema verði einnig til þess að skólar geti hagað starfsemi sinni með tilliti til þess,“ segir Ingvar.
Leiðbeinendur við rannsóknina eru Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við HR og Háskóla Íslands og forstöðumaður MSc-náms í klínískri sálfræði við HR, og Sævar Már Gústavsson, sálfræðingur og stundakennari við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík.
Ingvar fjallaði um rannsókn sína á málstofu um líðan háskólanema á Íslandi í hádeginu.