„Við erum búin að taka við gögnum í málinu og ég geri ráð fyrir því að við munum funda á föstudag,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is en hún og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa tímabundið verið kosin í hóp varaforseta Alþingis til þess að koma Klaustursmálinu svonefndu til siðanefndar þingsins til meðferðar.
Forsætisnefnd Alþingis ákvað í gær að Róbert H. Haraldsson tæki sæti Salvarar Nordal í siðanefnd Alþingis tímabundið. Róbert er sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands og var áður prófessor í heimspeki. Þar með er siðanefndin fullskipuð, en hún hefur hins vegar ekki verið formlega kölluð saman vegna Klaustursmálsins.
Tveir af þremur fulltrúum nefndarinnar óskuðu eftir því að fjalla ekki um Klaustursmálið. Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hætti í nefndinni en sú ákvörðun tengist málinu ekki. Varamaður hans, Margrét Vala Kristjánsdóttir, tekur sæti hans í nefndinni. Þá ákvað Salvör Nordal að koma ekki að málinu vegna anna í embætti sínu sem umboðsmaður barna.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður siðarnefndarinnar og fyrrverandi forseti Alþingis, verður áfram í nefndinni og mun fjalla um Klaustursmálið.
Klaustursmálinu var vísað til forsætisnefndar Alþingis í lok nóvember á síðasta ári af hópi þingmanna en Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, og allir varaforsetar lýstu sig í kjölfarið vanhæfa til þess að fjalla um það í ljósi þess að þeir hefðu tjáð sig um það.