Pálmatrén kosta 1,5 milljónir

Mynd/Reykjavíkurborg

Í kostnaðaráætlun fyrir verkið Pálmar sem á að setja upp í Vogabyggð er gert ráð fyrir því að tvö pálmatré kosti um 1,5 milljónir og gróðurhúsin tvö utan um þau um 43 milljónir króna hvort. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, kveðst fagna allri umræðu um list í almenningsrýmum.

„Verkið sem varð fyrir valinu er mjög djarft og skemmtilegt enda er listakonan þekkt fyrir slík verk. Það er fráleitt að verið sé að borga 140 milljónir króna fyrir trén sem slík. Þau munu ekki kosta nema brot af upphæðinni, heldur er verið að greiða fyrir höfundarverkið og gróðurhúsin sem eru hluti af verkinu,“ segir Ólöf í tilkynningunni.

Ólöf segir að í lýsingu listakonunnar Karin Sander segi að íbúar geti haft áhrif á verkið og lagt til annan framandi gróður í gróðurhúsin þegar fram líða stundir, t.d. kirsuberjatré eða aðrar jurtir. Þá hafi dómnefndin rætt við sérfræðinga varðandi pálmatrén sem segja að vel sé mögulegt að halda í þeim lífi í slíku vistkerfi og framkvæmdin því öll gerleg.

Í lokaðan hluta samkeppninnar bárust 13 gildar tillögur að útilistaverkum og eru allar tillögurnar til sýnis á Kjarvalsstöðum til 7. febrúar næstkomandi.

Mynd/Reykjavíkurborg

Ljósastaur á 12,5 milljónir króna

Dómnefndin lagði einnig til að Reykjavíkurborg festi kaup á tillögu danska listamannahópsins A Kassen sem kallast Endalausi ljósastaurinn en hann verður 30 metra hár. Gert er ráð fyrir að hann kosti 12,5 milljónir króna uppsettur.

Borgin fær tæpa sex milljarða

Fram kemur í tilkynningunni að þar sem listaverkið Pálmar muni prýða torg, geti risið um 1.300 íbúðir í fyrstu þremur áföngum uppbyggingarinnar. Tekjur borgarinnar af uppbyggingunni greiða kostnað við innviði þar með talið valin útilistaverk sem eru aðeins brot af heildarkostnaðinum eða um 1%.

Alls er áætlað að Reykjavíkurborg fái tæpa sex milljarða í byggingarréttar- og gatnagerðargjöld vegna uppbyggingarinnar og verða þær tekjur notaðar til að fjármagna alla innviði hverfisins eins og götur, lagnir, torg, lýsingu, gróður, skóla, leikskóla – og listaverk sem lóðarhafar greiða að jöfnum hluta á móti Reykjavíkurborg samkvæmt samningum, að því er segir í tilkynningunni.  

Í samþykktum samningsmarkmiðum borgarinnar á nýbyggingarsvæðum er ákvæði um að list í almenningsrýmum skuli fjármögnuð af lóðarhöfum. Er samið við hvern og einn lóðarhafa hversu hátt hlutfall þeir greiði til slíkra verka, aldrei minna en 50% og er fjármagnið eyrnamerkt listaverkum á svæðinu. Í því samhengi var Listasafni Reykjavíkur falið að halda alþjóðlega samkeppni um listaverk í Vogabyggð.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur sem mun vekja sérstaka athygli á slíkri list á árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert