Lækka dagpeninga yfir veturinn

Dagpeningar ríkisstarfsmanna vegna ferða innanlands hafa lækkað vegna lægra verðs …
Dagpeningar ríkisstarfsmanna vegna ferða innanlands hafa lækkað vegna lægra verðs gistingar yfir vetrartímann. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dagpeningar ríkisstarfsmanna fyrir ferðalög innanlands þar sem um ræðir gistingu og fæðu í einn sólarhring eru nú 26.100 krónur, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. Nokkra athygli hefur vakið að það sé lækkun frá því sem áður var, en fram að nýrri ákvörðun ferðakostnaðarnefndar var upphæðin 35.900 krónur fyrir einn sólarhring.

Ástæða lækkunarinnar er lækkun gistikostnaðar yfir vetrartímann, segir Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, í samtali við mbl.is.

Spurð hvort upphæðin verði hækkuð á ný í vor segir hún mega búast við því, en það verður undir nefndinni komið að taka slíka ákvörðun.

Ákvörðun ferðakostnaðarnefndar um dagpeninga ríkisstarfsmanna tók gildi í dag og er gert ráð fyrir 14.300 krónum fyrir gistingu, en var áður 24.600.

Þá eru 11.800 krónur ætlaðar í fæði fyrir hvern heilan dag og 5.900 krónur fyrir fæði hálfan dag. Þessar upphæðir hafa hækkað frá síðustu ákvörðun nefndarinnar sem var tekin 31. maí 2018 þegar gert var ráð fyrir 11.300 krónum fyrir fæði hvern heilan dag, sem er hækkun upp á 5,3%, og 5.650 krónur fyrir hvern hálfan, 4,4% hækkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert