Erlendur karlmaður fór ránshendi um sumarbústað í Vaðlaheiði, gegnt Akureyri, í nótt og hafði með sér Bang & Olufsen-hátalara, ullarteppi og vín. Bústaðurinn er einn af bústöðum Viking Cottages og segir Benedikt Viggósson, eigandi fyrirtækisins, að tjónið hlaupi á 300-400 þúsund krónum.
Viking Cottages gerir út fjóra sumarbústaði á svæðinu og segir Benedikt að þetta sé í fyrsta sinn á þremur árum sem hann lendir í þjófnaði. „Fólk skráir sig sjálft inn og aftur út, þannig að ég hitti viðkomandi aldrei,“ segir Benedikt en karlmaðurinn hafði bókað bústaðinn yfir eina nótt.
Maðurinn hafði samband við Benedikt símleiðis á laugardag eftir að ekki náðist að rukka kortið sem maðurinn hafði gefið upp við bókunina. „Ég hefði þá kannski getað kveikt á perunni þegar hann hringdi úr leyninúmeri,“ segir Benedikt en maðurinn þurfti að gefa upp fjögur kortanúmer áður en honum tókst loks að rukka hann.
Þjófnaðurinn kom upp þegar starfsmaður Viking Cottages mætti á svæðið í morgun til þess að þrífa eftir dvöl gestsins. Benedikt er búinn að hafa samband við gesti í öðrum húsum og fékk hann frá þeim m.a. þær upplýsingar að maðurinn sé á hvítum jepplingi. Fólkið í einum bústaðnum ætlar að fara yfir ljósmyndir sem það tók á meðan á dvölinni stóð til að athuga hvort hugsanlega hafi náðst myndir af bílnum og bílnúmerinu.