„Hann afhjúpaði siðblindu sína“

Jón Baldvin ræddi um ásakanirnar sem hann hefur verið borinn …
Jón Baldvin ræddi um ásakanirnar sem hann hefur verið borinn í Silfrinu í gær. Skjáskot/Rúv

„Ég tala fyrir hönd hópsins þegar ég segi að það sé bæði spennufall og léttir að hafa komið þessu út. Þetta er auðvitað enn þá erfitt en við finnum fyrir miklum samhug og áhuga,“ segir Guðrún Harðardóttir um bloggsíðuna með frásögnum kvenna af kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar sem opnuð var í dag.

Guðrún er systurdóttir Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldvins, og var einna fyrst til þess að ásaka Jón Baldvin um kynferðislega áreitni þegar hún steig fram í Nýju lífi árið 2012 og sagði frá óviðeigandi bréfum sem hún fékk frá honum á unglingsaldri.

„Það er mjög mikil traffík inn á síðuna og flestir hvetja okkur áfram. Það eru einstaka raddir sem gagnrýna að sögurnar séu nafnlausar, en ég tek það skýrt fram að sögurnar hafa allar borist okkur undir nafni,“ segir Guðrún.

Nýjasta sagan barst hópnum í gærkvöldi og enn er hægt að deila sögum á Metoo-hópnum á Facebook eða með því að senda tölvupóst á taepitungulaust@gmail.com.

„Við höfðum þó ekki hugsað okkur að bæta sögum við á bloggsíðunni, því okkur finnast þessar 23 sögur sem þar eru gefa nægilega skýra mynd af alvarleika málsins og þessu hegðunarmynstri hans síðastliðin 50 ár. Þrátt fyrir það lifir Facebook-síðan áfram sem og tölvupósturinn, og þangað geta konur áfram leitað til þess að skila skömminni, hvort sem það er nafnlaust eða ekki,“ segir Guðrún.

Fólki hafi blöskrað framkoma Jóns Baldvins í Silfrinu

Guðrún segir að viðtal við Jón Baldvin í Silfrinu á sunnudagsmorgun hafi valdið því að fjölmargir hafi bæst í Metoo-hópinn til þess að sýna stuðning. „Fólki blöskraði framkoma Jóns Baldvins. Það eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir á því hvort hans málsvörn hafi átt heima í ríkissjónvarpi en persónulega finnst mér eðlilegt að hann fái að svara fyrir sig.“

„Mér fannst gott að sjá hvernig hann afhjúpaði siðblindu sína með því að eyða öllu púðrinu í að sverta mannorð dóttur sinnar. Hann hikar ekki við það að ljúga upp á andstæðinga sína,“ segir Guðrún.

Alveg sama um bókina

Hún segir samsæriskenningarnar sem Jón Baldvin setti fram hlægilegar. „Að það sé eitthvað annað á bak við þetta en einlæg ósk okkar til þess að segja almenningi sannleikann. Þetta er eina leiðin sem okkur gefst. Tvær okkar hafa þegar reynt að fara með þetta fyrir dómstóla en málin hafa verið felld niður. Það þýðir ekki að hann sé saklaus.“

Guðrún segir þær konur sem stigið hafa fram ekki þekkjast innbyrðis og að hún sé að hitta þær flestar í fyrsta sinn. Þær séu á ólíkum aldri, á ólíkum stað í lífinu og að sumar búi erlendis. „Að láta sér detta það í hug að við séum að reyna að klekkja á honum út af einhverri bók, sem okkur er alveg sama um, er fáránlegt.“

„Ástæðan fyrir því að við höfum þetta nafnlaust er að skapa umræðu, hætta að einblína á þolendurna og tala frekar um gerandann. Við viljum vera fyrirmyndir fyrir aðra og sýna að svona tíðkast ekki lengur. Þetta er búið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert