Halda hefði átt þjóðaratkvæði áður en sótt var um inngöngu í Evrópusambandið árið 2009 og röng ákvörðun var að fella þingsályktunartillögu þess efnis. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í umræðum á Alþingi í dag þar sem hún brást við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins.
„Þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu 2009, meðal annars með mínu atkvæði, var lögð fram tillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin áður en slík umsókn yrði lögð fram. Sú tillaga var felld og ég hef sagt það seinna meir að það hefði verið öllum til góða að samþykkja þá tillögu og ráðast í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu áður en ákveðið var að sækja um aðild,“ sagði Katrín enn fremur og bætti við:
„Mín skoðun er sú að það hefði verið betra, að það hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá okkur, sem þó stóðum að því að fella þá tillögu, að fella hana. Það er stórmál, meiri háttar mál, að ákveða að fara í slíkar aðildarviðræður og því vil ég segja háttvirtum þingmanni að ég hef sagt það síðan, eftir að hafa ígrundað þessi mál og farið yfir þau töluvert vel, ekki síst á vettvangi minnar hreyfingar, að ég myndi telja óráð að ráðast í slíka umsókn á nýjan leik án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla.“
Sigmundur boðaði þingályktunartillögu þar sem fagnað yrði því að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hefði verið dregin til baka í forsætisráðherratíð hans með bréfi þáverandi utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar til sambandsins. Enn fremur að þar yrði áréttað að ekki yrði sótt aftur um inngöngu í Evrópusambandið án þess að það væri borið undir þjóðina. Spurði hann hvort Katrín gæti ekki tekið undir það.
„Ég ætla að láta mér nægja að segja að ef þessi þingsalur gæti sammælst um að leita leiðsagnar þjóðarinnar áður en nýjar ákvarðanir eru teknar held ég að það væri farsælt fyrir þjóðina. Sjálf hef ég ekki breytt þeirri skoðun að ég tel enga ástæðu til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En ég hef líka alltaf lýst þeirri skoðun að ég er reiðubúin að leita leiðsagnar þjóðarinnar ef vilji þingsins stendur til þess að fara aftur í þessa vegferð. Minn vilji stendur ekki til þess.“