Lögmenn Ríkisútvarpsins eru að fara yfir stefnu sem lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, sendi á föstudag þar sem farið er fram á sex milljónir í miskabætur vegna fréttaflutnings. RÚV gerir að óbreyttu ráð fyrir að taka til varna fyrir dómi.
Þetta kemur fram í svari Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra við fyrirspurn mbl.is.
Auk þess að fara fram á áðurnefndar miskabætur er farið fram á 1,2 milljónir í bætur frá RÚV vegna birtingar og að ýmis ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Er það vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri árið 2017.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður Rositu, sagði við mbl.is að málið yrði sótt af festu og að hann telji að málagrundvöllurinn sé mjög sterkur.
Sjanghæ-málið vakti mikla athygli og var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum landsins fyrstu dagana í september 2017. Í fyrstu frétt ruv.is af málinu 30. ágúst 2017 sagði meðal annars: „Eigandi veitingastaðar á Akureyri er grunaður um vinnumansal. Grunur leikur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum.“
Ummælin eru meðal þeirra sem stefnendur gera ósk um að verði dæmd dauð og ómerk.
Málið er rakið í stefnunni en þar kemur fram að stéttarfélaginu Einingu-Iðju hafi borist ábendingar um aðstæður starfsfólks á veitingastaðnum. Rætt var við fulltrúa stéttarfélagsins í kvöldfréttum RÚV 30. ágúst 2017, fyrir utan veitingastaðinn.
Stéttarfélagið komst að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar um kjör starfsmanna sem fram kæmu í gögnum sem aflað var við vinnustaðaeftirlitið stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum. Grunur um mansal reyndist því ekki á rökum reistum, samkvæmt athugun stéttarfélagsins.
Í stefnunni segir að ljóst sé að starfsmenn Einingar-Iðju hafi aldrei staðfest annað en að ábending hafi komið fram og grunur léki á að eitthvert misferli væri í gangi.