Veggjöld verst fyrir tekjulága

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hvort refsa eigi þeim sérstaklega …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hvort refsa eigi þeim sérstaklega sem hafa ekki efni á að kaupa rafmagnsbíl. mbl.is/Eggert

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sakaði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og flokk hennar um stefnubreytingu í ræðu sinni undir óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Sagði hann að búið væri að veikja tekjustofna ríkisins.

Fullyrti Logi að auðlindagjöld hefðu verið lækkuð og að ríkið ráði ekki við uppbyggingu innviða. Frekar er gripið til þess ráðs að fjármagna þarfar framkvæmdir á sviði samgöngumála með nýrri skattlagningu sem myndi koma niður á fólki með lægstu launin, að sögn hans.

„Nú á að láta þá borga sem nota í stað þess að þeir greiði sem geta,“ sagði Logi. „Eigum við að refsa þeim sérstaklega sem hafa ekki efni á að kaupa rafmagnsbíl?“ spurði hann og vísaði til þess að bensíngjöld myndu standa óbreytt þrátt fyrir innheimtu veggjalda.

Spurði hann einnig hvort forsætisráðherra hefði orðið fráhverfur stefnu VG um að hækka „tekjuskatt á ofurlaun og auðlegðarskatt á moldríkt fólk“. Þá sagði hann einnig skattbyrði lægri tekjuhópa hafa aukist til muna.

Breytt skattkerfi

Katrín vísaði því á bug að hennar flokkur hafi ekki stuðlað að því að skattleggja þá með hæstar tekjurnar. Vísaði hún til þess að þegar VG settist í ríkisstjórn 2009 hafi fjármagnstekjuskattur verið 10% en var þá hækkaður í 20%. „Þar hefur hann setið þar til Vinstri hreyfingin – grænt framboð fór aftur í ríkisstjórn núna og var hækkaður um 10%, úr 20% í 22%.“

Katrín benti einnig á að skattkerfinu hafi verið breytt með þeim hætti að bæði skattþrepin yrðu látin fylgja neysluvísitölu í þeim tilgangi að auka jöfnuð, en áður hafði efra skattþrepið fylgt þeirri vísitölu á meðan neðra fylgdi launavísitölu.

Hún sagði einnig að barnabætur hefðu hækkað sem væru til þess fallnar að lækka skattbyrði þeirra tekjulægstu. Bætti ráðherrann við að mikilvægt sé að ná sátt um skattkerfið og eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar skref í þá átt, að sögn hennar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auðlindagjaldið

Katrín sagði liggja fyrir að sérstakur skattur á þá sem nýta sjávarauðlindina væri 33% ofan á alla aðra skatta sem greinin þegar greiðir.

Hún tók fram að vissulega gæti verið ágreiningsmál hvort það væri nægilega skattheimta, en það hefði verið mikilvægt skref að afkomutengja skattlagninguna þannig að fast hlutfall af hagnaði þeirra sem nýta auðlindina myndi skila sér til samfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert