Veggjöld verst fyrir tekjulága

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hvort refsa eigi þeim sérstaklega …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hvort refsa eigi þeim sérstaklega sem hafa ekki efni á að kaupa rafmagnsbíl. mbl.is/Eggert

Logi Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sakaði Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra og flokk henn­ar um stefnu­breyt­ingu í ræðu sinni und­ir óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um á Alþingi í dag. Sagði hann að búið væri að veikja tekju­stofna rík­is­ins.

Full­yrti Logi að auðlinda­gjöld hefðu verið lækkuð og að ríkið ráði ekki við upp­bygg­ingu innviða. Frek­ar er gripið til þess ráðs að fjár­magna þarfar fram­kvæmd­ir á sviði sam­göngu­mála með nýrri skatt­lagn­ingu sem myndi koma niður á fólki með lægstu laun­in, að sögn hans.

„Nú á að láta þá borga sem nota í stað þess að þeir greiði sem geta,“ sagði Logi. „Eig­um við að refsa þeim sér­stak­lega sem hafa ekki efni á að kaupa raf­magns­bíl?“ spurði hann og vísaði til þess að bens­ín­gjöld myndu standa óbreytt þrátt fyr­ir inn­heimtu veggjalda.

Spurði hann einnig hvort for­sæt­is­ráðherra hefði orðið frá­hverf­ur stefnu VG um að hækka „tekju­skatt á of­ur­laun og auðlegðarskatt á mold­ríkt fólk“. Þá sagði hann einnig skatt­byrði lægri tekju­hópa hafa auk­ist til muna.

Breytt skatt­kerfi

Katrín vísaði því á bug að henn­ar flokk­ur hafi ekki stuðlað að því að skatt­leggja þá með hæst­ar tekj­urn­ar. Vísaði hún til þess að þegar VG sett­ist í rík­is­stjórn 2009 hafi fjár­magn­s­tekju­skatt­ur verið 10% en var þá hækkaður í 20%. „Þar hef­ur hann setið þar til Vinstri hreyf­ing­in – grænt fram­boð fór aft­ur í rík­is­stjórn núna og var hækkaður um 10%, úr 20% í 22%.“

Katrín benti einnig á að skatt­kerf­inu hafi verið breytt með þeim hætti að bæði skattþrep­in yrðu lát­in fylgja neyslu­vísi­tölu í þeim til­gangi að auka jöfnuð, en áður hafði efra skattþrepið fylgt þeirri vísi­tölu á meðan neðra fylgdi launa­vísi­tölu.

Hún sagði einnig að barna­bæt­ur hefðu hækkað sem væru til þess falln­ar að lækka skatt­byrði þeirra tekju­lægstu. Bætti ráðherr­ann við að mik­il­vægt sé að ná sátt um skatt­kerfið og eru aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar skref í þá átt, að sögn henn­ar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Auðlinda­gjaldið

Katrín sagði liggja fyr­ir að sér­stak­ur skatt­ur á þá sem nýta sjáv­ar­auðlind­ina væri 33% ofan á alla aðra skatta sem grein­in þegar greiðir.

Hún tók fram að vissu­lega gæti verið ágrein­ings­mál hvort það væri nægi­lega skatt­heimta, en það hefði verið mik­il­vægt skref að af­komu­tengja skatt­lagn­ing­una þannig að fast hlut­fall af hagnaði þeirra sem nýta auðlind­ina myndi skila sér til sam­fé­lags­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert