Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, hefur óskað eftir því að fá að segja sína sögu og bregðast við svörum Jóns Baldvins sem hann veitti í Silfrinu á sunnudag, í sambærilegu viðtali, það er í sjónvarpi.
Í færslu á Facebook segist Aldís vera að safna kröftum þar til hún mun tilneydd verða að „verjast þessu slæga illmenni“. Þar vísar hún til föður síns, sem ræddi ásakanirnar sem hann hefur á síðustu misserum verið borinn, um að hafa beitt konur kynferðislegu áreitni og að hafa í krafti valds síns látið nauðungarvista dóttur sína, Aldísi.
Í viðtalinu sagði Jón Baldvin meðal annars að enginn einn maður gæti nauðungarvistað annan einstakling. „Það er neyðarúrræði lækna. Það þarf aðkomu fleiri lækna og það þarf atbeina dómsmálaráðuneytis,“ sagði hann. Þá sagði hann það fráleitt að hann einn hefði stöðu sinnar vegna getað staðið fyrir því að dóttir hans væri nauðungarvistuð.
Aldís segist liggja undir feldi en það muni ekki vara lengi. „En viti menn, klædd brynju réttlætisins mun ég skjótt há lokaorustuna til sigurs - alls óhrædd, og sigra hann og hans barnaníðingabandalag. Og það á opinberum vettvangi,“ segir í færslu Aldísar, sem óskar jafnframt eftir því að vinir sínir og kunningjar á Facebook spyrji þáttastjórnendur Silfursins hvort þeir ætli ekki að veita henni „drottninga[r]viðtal?“