Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram hefur verið fjarlægt úr matsal Menntaskólans á Ísafirði þar sem það hefur hangið í 35 ár.
Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins, sem hefur fengið málið staðfest frá Jóni Reyni Sigurvinssyni skólameistara. Þetta hefur Fréttablaðið einnig fengið staðfest, en mbl.is náði ekki tali af skólameistaranum.
Jón Baldvin var fyrsti skólameistari Menntaskólans á Ísafirði á árunum 1970 til 1979 og eiginkona hans, Bryndís Schram, gegndi einnig skólameistarastöðu við skólann um tíma, auk þess sem hún sinnti þar kennslu í tungumálum.
Það var nemandi í femínistafélagi skólans sem óskaði eftir því að málverkið yrði tekið niður og var það gert samdægurs. Jón Reynir segir í samtali við RÚV að honum hafi ekki borist formlegt erindi um að láta fjarlægja málverkið, heldur hafi það verið gert til þess að bregðast við ábendingum frá nemendum og starfsfólki um að verkið ylli óþægindum.
Málverkið mun hafa verið gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans á tíu ára stúdentsafmæli þeirra árið 1984.