Þjóðveginum milli Hvolsvallar og Víkur hefur verið lokað vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður hann líklega opnaður aftur klukkan eitt eftir miðnætti. Veginum um Skeiðarársand, Öræfi og Höfn verður líklega lokað fljótlega og Hellisheiði og Þrengslum verður líklega lokað um klukkan 16 í dag vegna veðurs. Þá hefur óvissustigi verið lýst yfir á Kjalarnesi frá klukkan 18.
Öllu innanlandsflugi hefur einnig verið aflýst það sem eftir er dags vegna veðurs. Til stóð að fljúga til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða síðdegis.
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðausturlandi og á miðhálendinu en appelsínugul viðvörun á Suðurlandi þar sem gengur í austanstorm eða -rok og jafnvel staðbundið ofsaveður í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð allt að 45 metrum á sekúndu og hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður.