Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, furðar sig á samsetningu matvörukörfu verðlagsefetirlits ASÍ í samanburði á verði vörukörfu í höfuðborgum Norðurlandanna. Þrettán af átján hlutum í körfunni séu íslenskar landbúnaðarvörur og því komi hátt verð íslensku matvörukörfunnar ekki á óvart.
Logi Bergmann og Hulda Bjarna slógu á þráðinn til Guðmundar í síðdegisútvarpi K100 til þess að ræða niðurstöður verðlagseftirlitsins þess efnis að matvörukarfa í Reykjavík sé 67% dýrari en í Helsinki í Finnlandi þar sem hún er ódýrust.
Guðmundur segir íslenskan landbúnað dýran og að hér ríki innflutningsvernd sem skili sér í hærra verði á matvörukörfu ASÍ. Þrátt fyrir að Bónus myndi selja vörurnar á listanum án álagningar yrðu þær samt 50% dýrari en í Helsinki. Skýringanna sé því ekki að leita í álagningu búðarinnar.
Þá segir hann að gott væri að fá að sjá hvaða vörur verið sé að bera saman, sérstaklega í ljósi sláandi verðmunar á spaghettí og gulrótum.
Guðmundur myndi vilja sjá lægra hlutfall íslenskra landbúnaðarvara í körfunni og bæta við merkjavörum á borð við morgunkorn og þvottaefni.