Klæddist einkennisjakka lögreglunnar

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í átta mánaða fangelsi og svipt hann ökurétti ævilangt eftir að hann var ákærður í tvígang með tæplega eins mánaðar millibili.

Fyrri ákæran var gefin út af héraðssaksóknara 14. desember í fyrra fyrir brot gegn valdstjórninni og vopnalögum með því að hafa föstudagskvöldið 8. júní 2018, utandyra við Lækjarvað í Reykjavík, verið íklæddur opinberlega, án heimildar, einkennisjakka sem er áskilinn íslensku lögreglunni sem hluti af einkennisbúningi hennar og fyrir að hafa í vörslum sínum útdraganlega kylfu sem er ekki ætluð til íþróttaiðkunar og ein handjárn úr máli.

Síðari ákæran var gefin út af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 10. janúar síðastliðinn meðal annars fyrir að aka fjórum sinnum sviptur ökurétti, þar af í þrjú skipti einnig undir áhrifum áfengis og fyrir að hafa haft í vörslum sínum 16,64 grömm af maríjúana.

Sakaferill mannsins nær aftur til ársins 2010 og hefur hann hlotið nokkra refsidóma fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og ýmis hegningarlagabrot.

Ákærði játaði brot sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert