Samkvæmt drögum að siðareglum starfsmanna Samgöngustofu verður lögð skylda á starfsmenn til að tilkynna „siðferðislega ámælisvert“ athæfi til yfirmanna.
Þórhildur Elín Árnadóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir engin viðurlög við því ef starfsmenn brjóta þessa tilkynningaskyldu, enda séu siðareglurnar settar á til að koma á umræðu og bæta vinnustaðamenningu.
„Ég held það séu engin viðurlög við þessu, það er engin siðanefnd eða neitt slíkt. Þetta er í rauninni bara tilraun til þess að ræða opinskátt um hvernig við viljum hafa okkar sameiginlegu útgangspunkta. Hvað okkur finnst eðlilegt og hvað okkur finnst að við eigum að forðast. Í raun efla sameiginlegu gildin okkar, sem voru sett í upphafi og hafa reynst okkur mjög vel,“segir Þórhildur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.