Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar lögð niður

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, Dóra …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar, og Líf Magneudóttir borgarfulltrúi, fulltrúar borgarmeirihlutans, kynntu tillögurnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, fjármálaskrifstofa og skrifstofa þjónustu og reksturs verða lagðar niður í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í júní nk. og þrjú ný kjarnasvið, svið þjónustu og nýsköpunar, svið mannauðs og starfsumhverfis og svið fjármála og áhættustýringar sett á stofn.

Þetta kemur fram í tillögu um stjórnsýslubreytingar hjá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru í borgarráði í dag, en Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður ráðsins, bar tillöguna á borð.

Fulltrúar meirihluta í borginni kynntu ellefu tillögur um breytta stjórnsýslu …
Fulltrúar meirihluta í borginni kynntu ellefu tillögur um breytta stjórnsýslu borgarinnar í dag. mbl.is/Eggert

Auk þess sem að framan greinir verður hlutverk innkauparáðs aukið og starf regluvarðar Reykjavíkurborgar eflt. Að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg miða breytingarnar að því að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti og bæta þjónustu við borgarbúa. Grunnurinn að tillögunum er skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins Strategíu.

Framkvæmdastjórn borgarinnar sett á fót

Lagt er til að sérstök framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar verði sett á laggirnar undir forystu borgarstjóra og að þar eigi einnig sæti helstu stjórnendur borgarinnar. Einnig er lagt til að innri endurskoðun borgarinnar og embætti umboðsmanns borgarbúa heyri beint undir borgarráð til að undirstrika óhæði þeirra í stjórnkerfi borgarinnar. 

Lagt er til að nýtt skipurit borgarinnar taki gildi 1. …
Lagt er til að nýtt skipurit borgarinnar taki gildi 1. júní nk.

Lagt er til að skipuritið að ofan taki gildi fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar 1. júní 2019 og að þrjú kjarnasvið verði stofnuð; svið þjónustu og nýsköpunar, svið mannauðs og starfsumhverfis og svið fjármála og áhættustýringar. Sviðin taki við stórum hluta af þeim verkefnum sem nú er sinnt á skrifstofum miðlægrar stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. 

Þá verði gerðar ýmsar breytingar á verkefnum og verkaskiptingu skrifstofa í miðlægri stjórnsýslu, þ.e. á skrifstofu borgarstjórnar og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Þannig fái mannréttindaskrifstofa heitið mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa og heyri undir borgarritara. Jafnframt fái mannréttinda- og lýðræðisráð heitið mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð til að undirstrika tengingu ráðsins við nýtt svið þjónustu og nýsköpunar sem og áframhaldandi tengingu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og þá málaflokka sem þar falla undir. Nánari útfærsla á verkaskiptingu milli fagsviða, kjarnasviða og skrifstofa miðlægrar stjórnsýslu verður unnin á innleiðingartíma breytinganna.

Ný störf auglýst í samræmi við ný kjarnasvið

Lagt er til að fjármálaskrifstofa, skrifstofa þjónustu og reksturs og skrifstofa eigna og atvinnuþróunar verði lagðar niður frá og með 1. júní nk. Jafnframt er lagt til að starf fjármálastjóra, starf skrifstofustjóra skrifstofu þjónustu og reksturs og starf skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar verði lögð niður frá og með sama tíma.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert

Stöður nýrra sviðsstjóra fjármála- og áhættusviðs og sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar verði settar á laggirnar og auglýstar lausar til umsóknar í samræmi við reglur borgarráðs um ráðningar í æðstu stjórnunarstöður. Jafnframt verði sett á laggirnar ný staða sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Lagt er til að núverandi skrifstofustjóra skrifstofu þjónustu og reksturs verði boðið starf sviðsstjóra nýs sviðs þjónustu og nýsköpunar í samræmi við heimild í reglum um réttindi og skyldur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg.

Verkaskipting verði skoðuð á þessu ári

Lagt er til að á innleiðingartíma framangreindra breytinga verði unnið frekar úr ábendingum og tillögum sem fram koma í skýrslu Strategíu um endurskoðun skipurits og stjórnarhátta Reykjavíkurborgar. Þar á meðal eru atriði sem snúa að verkaskiptingu milli borgarstjórnar og borgarráðs, milli borgarráðs og fagráða, fyrirkomulagi upplýsingamiðlunar frá borgarstjóra og framkvæmdastjórnar til borgarráðs og borgarstjórnar og frá sviðsstjórum til framkvæmdastjórnar og ráða og nefnda, ásamt öðrum úrbótatillögum og hugmyndum sem reifaðar eru í skýrslunni. Vinnu við þá yfirferð verði lokið á síðari hluta þessa árs.

Meðal annars er lagt til að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar …
Meðal annars er lagt til að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar verði lögð niður. mbl.is/Eggert

Yfirumsjón og eftirlit með innleiðingu breytinganna hefur formaður borgarráðs ásamt forseta borgarstjórnar. Borgarritari verður þeim til aðstoðar. Þar að auki verða settir á laggirnar innleiðingarhópar utan um einstaka þætti breytingaferlisins. Leitað verður til utanaðkomandi ráðgjafa sem sérfróðir eru á sviði innleiðingar breytinga og stjórnarhátta auk sérfræðinga í innri og ytri upplýsingamiðlun í tengslum við breytingar.

Að lokum er lagt til að settur verði á stofn stýrihópur sem hafi það hlutverk að móta almenna eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart b-hluta félögum þar sem m.a. verði að finna kröfur um stjórnarhætti b-hluta félaga, meðferð atkvæðisréttar, form og efnisreglur samskipta við stjórnir og stjórnendur félaganna o.fl. Stýrihópurinn skili tillögum sínum að almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar til borgarráðs fyrir árslok 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert