Rósa Björk Brynjólfsdóttir greiddi atkvæði gegn tillögu um formennsku Jóns Gunnarssonar í umhverfis- og samgöngunefnd, ein stjórnarliða. Einnig kusu þær Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, og Hanna Katrín Friðriksson, úr Viðreisn, báðar í stjórnarandstöðu gegn tillögunni. Tveir þingmenn minnihlutans greiddu aftur á móti atkvæði með tillögunni.
„Mér fannst mikilvægt að styðja við tillögu minnihlutans þegar kemur að forystu í þessari nefnd, minnihlutinn á þetta sæti og mér fannst mikilvægt að halda í heiðri þeim áherslum sem hafðar voru um að hér yrði sátt og samlyndi, og um lýðræðislega aðkomu minnihlutans að nefndum,“ sagði Rósa Björk í samtali við mbl.is að fundi loknum.
Spurð hvort sömu sjónarmið ættu ekki við í tilfelli Miðflokksins sem falin var formennska í nefndinni undir sama samkomulagi segir Rósa Björk: „Nei, mér finnst það ekki.“
„Ef minnihlutinn leggur Hönnu Katrínu til sem formann þá þykir mér rétt að styðja það,“ segir Rósa.
Rósa Björk sagði í samtali við blaðamann að staðan sem blasir nú við í nefndum Alþingis sé „mjög eftirtektarverð, svo vægt sé til orða tekið“.
„Sjálfstæðisflokkurinn er með fjórar formennskur hér á þinginu og kominn með algjör undirtök á nefndum þingsins. Ég er ekki viss um að það sé í takt við það sem við viljum sjá,“ segir Rósa Björk og bætir við að þá stöðu þurfi að ræða frekar innan meirihlutans.