Drífa kallar eftir aðgerðum

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

„Ef við grípum ekki til aðgerða getum við allt eins gefið út yfirlýsingu um að okkur sé sama um að hér þrífist þrælahald,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í pistli á heimasíðu sambandsins vegna máls rúmenskra verkamanna sem kom upp í gær.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að rúmenskir verkamenn sem starfa eða störfuðu í byggingariðnaði á vegum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. hefðu stigið fram. Þeir hafi ekki fengið greidd þau laun sem þeim ber og er komið fyrir mörgum saman við þröngan kost í ólöglegu íbúðarhúsnæði í Kópavogi.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, fór sjálfur á staðinn í gær og lýsti aðbúnaði mannanna þannig að venjulegt fólk gæti ekki trúað því að svona gerist á Íslandi.

Baráttan ekki úr lausu lofti gripin

Drífa segir að því miður séu eflaust fleiri erlendir verkamenn í þessum aðstæðum og geti ekkert gert.

„Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi. Barátta verkalýðshreyfingarinnar til margra ára gegn félagslegum undirboðum og glæpastarfsemi á vinnumarkaði er ekki úr lausu lofti gripin og það er hreint hörmulegt að ekki sé enn komin aðgerðaráætlun í mansalsmálum og skipulagt samræmt eftirlit með öflugri eftirfylgni sem hefur að markmiði að uppræta þessa brotastarfsemi með öllum tiltækum ráðum,“ segir Drífa.

Hún bendir jafnframt á að úrræði vanti varðandi samræmdar aðgerðir og að einhver mæti þörfum þolenda. Til dæmis með því að tryggja öryggi, húsnæði og að skipuleggja aðgerðir yfirvalda gegn fyrirtækjum.

„Allt þetta þarf að gerast fljótt, örugglega og fumlaust. Í dag höfum við ekki þetta skipulag og glæpamenn sem eru svo fégráðugir að þeim er sama um grundvallarmannréttindi geta þannig vaðið uppi nánast óáreittir. Þessi glæpafyrirtæki geta svo boðið lágt verð í framkvæmdir, jafnvel á vegum ríkis og sveitarfélaga því það er sannanlega ódýrara að fá þræla til verksins en fólk sem krefst launa.“

Rúm­ensku verka­menn­irn­ir störfuðu í bygg­ing­ariðnaði á höfuðborg­ar­svæðinu.
Rúm­ensku verka­menn­irn­ir störfuðu í bygg­ing­ariðnaði á höfuðborg­ar­svæðinu. mbl.is/Hari

„Stöðvum þetta núna!“

Drífa segir að það eigi ekki að þurfa þrýsting lausra kjarasamninga til þess að tekið sé á málum og grundvallarmannréttindi tryggð.

„Stöðvum þetta núna! Fjármögnum aðgerðaráætlun gegn mansali, komum á keðjuábyrgð, stöðvum kennitöluflakk, styrkjum útboðsskilyrði og þéttum og samræmum eftirlit og aðgerðir gegn brotafyrirtækjum! Allt þetta og meira til er að finna í tillögum í tengslum við kjarasamninga gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. En það á ekki að þurfa þrýsting sem lausir kjarasamningar bjóða upp á til að taka á grundvallarmannréttindum. Það er mælikvarði á siðmenntað samfélag hvernig við komum fram við þau sem eru í viðkvæmustu stöðunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert