Stolt af að þora að taka óvinsæla slagi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, segir flokkinn eiga að …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, segir flokkinn eiga að vera eigi að vera stoltan af því vera stjórnmálahreyfing sem þori að taka óvinsæla slagi og óvinsælar ákvarðanir. mbl.is/​Hari

„Það getur tekið á að vera í VG og stundum er það skrýtið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG í ávarpi sínu á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. „Við erum alltaf næstum því með þetta og steinhissa þegar enginn er sammála okkur. Við rífumst oft, við gefum helst engan afslátt, en við erum líka félagar.“

Fundurinn í kvöld er haldin er í tilefni að 20 ára afmæli flokksins og stiklaði Katrín að því tilefni á stóru í sögu flokksins, auk þess að ræða ítarlega þátttöku VG í ríkisstjórn og sagði hún stöðu flokksins þar góða til að ná fram ýmsu af sínum markmiðum.

„Í stefnu ríkisstjórnarinnar eru lykilmálin þau sömu og við lögðum mesta áherslu á fyrir síðustu kosningar. Við vildum sjá árangur í uppbyggingu samfélagslegra innviða – við vildum sjá raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum – við vildum sjá framfarir í jafnréttis- og kvenfrelsismálum. Allt það sem við höfum staðið fyrir hingað til og náð árangri í,“ sagði Katrín.

Markmið VG orðið að markmiði stjórnvalda

Þá sagði Katrín ýmsar þær breytingar sem orðið hafi á skattkerfinu ekki hafa orðið að veruleika, nema vegna þess að VG sé í stjórn. Ekki megi þó gleyma því að lýðræðislegir ferlar kalli á að fleiri sjónarmið en flokksins séu tekin til greina. „Við ráðum ekki ein og breytingar sem eiga að standast tímans tönn þurfa að njóta víðtæks stuðnings,“ bætti hún við.

Loftslagsmálin séu líklega stærsta áskorun sem íslenskt samfélag standi frammi fyrir og sagði Katrín nú í fyrsta sinn vera komin fram alvöru fjármögnuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar settar séu fram raunhæfar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. „Markmiðið sem Vinstri-græn settu fyrst á dagskrá íslenskra stjórnmála – um kolefnishlutlaust Ísland – er núna orðið markmið stjórnvalda.“

Flokksráðsfundur VG á Grand Hótel.
Flokksráðsfundur VG á Grand Hótel. mbl.is/​Hari

Þá hafi stórátak verið gert í friðlýsingum og náttúruvernd og farið í átak gegn plastnotkun undir forystu Guðmundar Inga Guðmundssonar, umhverfisráðherra VG.

Fagnar afhjúpun þess veruleika sem konur hafa búið við

Jafnréttismál og #MeToo byltingin bar á góma í ræðunni og sagði Katrín til að mynda hafa verið orðið löngu tímabært að útvíkka jafnréttishugtakið þannig að það tæki einnig til hinseginfólks, líkt og gert hafi verið er jafréttismálin voru flutt yfir í forsætisráðuneytið. Það hafi komið í sinn hlut að fylgja eftir breyttri réttarstöðu trans- og intersex fólks sem VG hafi lagt áherslu á við gerð stjórnarsáttmála.

„Nú höfum við tækifæri til að gera betur og koma Íslandi aftur í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Sömuleiðis gefst tækifæri á mikilvægum úrbótum í meðferð kynferðisbrotamála og gefa þessum málaflokki aukið vægi með því að efla fræðslu og umræðu til að vinna gegn kynbundnu áreiti og ofbeldi,“ sagði Katrín og kvað VG taka því „fagnandi að sá veruleiki sem konur í öllum lögum og öllum geirum íslensks samfélag hafa mátt búa við hafi verið afhjúpaður með MeToo bylgjunni.“ Nýta þurfi þá þekkingu og skilning sem þar hafi orðið til til að gera enn betur.

 „Því konur eiga að geta lifað og hrærst í íslensku samfélagi, innan heimilis og utan, í tómstundum og vinnu, í almannarýminu og á skemmtistöðum, án þess að þurfa að sæta kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Þessu verður að linna.“

Skilur þá sem eru ósáttir vegna Venesúela

Traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum bar einnig á góma, sem og skiptar skoðanir félaga í VG á þeirri ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarssonar utanríkisráðherra að lýsa yfir stuðningi við Juan Guaidó sem bráðabirgða forseta Venesúela.

„Um allan heim sjáum við nú uppgang valdboðsstjórnmála. Um leið sjáum við vaxandi spennu í samskiptum ríkja og stoðir fjölþjóðlegs samstarfs titra í þeirri valdabaráttu sem stendur yfir í heiminum. Við höfum lagt á það áherslu að íslensk stjórnvöld tali alltaf fyrir friðsamlegum lausnum og gegn vígvæðingu,“ sagði Katrín og kvað Íslendinga geta gert enn betur nú þegar það eigi sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

„Við eigum að taka skýra afstöðu gegn valdboðsstjórnmálum samtímans og við eigum eftir sem áður að standa gegn stórhættulegu hagsmunakapphlaupi stórvelda. Ísland hefur oftast fylgt öðrum Norðurlöndum í utanríkismálum þar sem þau sameinast um að vera boðberar lýðræðislegra lausna. Yfirlýsing Íslands í málefnum Venesúela á rætur að ríkja til þessarar stefnu enda er alþjóðlegur þrýstingur á að þar verði boðað til lýðræðislegra kosninga. Ég veit að sumir félagar okkar eru ósáttir við framgang þessara mála og ég hef skilning á því. Þess vegna höfum við sett lýðræðislegar kosningar á oddinn,“ sagði hún og kvaðst leggja ríka áherslu á að ekki sé á nokkurn hátt verið að styðja hernaðaríhlutun, heldur sé verið að leggja áherslu á friðsamlega lausn á deilunni.

Stolt af að þora að takast á

VG þurfi að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu vinstrimanna – flokkurinn geri nú með aðild að Progressive International, hreyfingu sem sett var saman af Bernie Sanders og Yanis Varoufakis, sem stuðla á að jafnrétti, félagslegu réttlæti og sjálfbærni. „Þarna getur vinstrið skipt sköpum til að tryggja réttindi fólks, vernd umhverfis og jafnari kjör fyrir okkur öll,“ sagði Katrín.

VG eigi að vera stolt af því vera stjórnmálahreyfing sem hafi jafnan þorað að taka óvinsæla slagi og óvinsælar ákvarðanir. „Við getum verið stolt af því að vera stjórnmálahreyfing sem lætur stefnu og málefni ekki ráðast af fjölda læka heldur mótar stefnu sína á félagslegan hátt og stendur með henni. Við getum verið stolt af því að hafa í tuttugu ára sögu þorað að takast á og takast í hendur þrátt fyrir að vera ósammála.“ VG geti  verið stolt af því að hafa forgangsraðað því að gera samfélaginu gagn því það hafi flokkurinn svo sannarlega gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert