Hugmynd Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra um að nota arðgreiðslur Landsvirkjunar til þess að byggja upp vegakerfið hefur ekki verið rædd innan ríkisstjórnarinnar. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Sigurður Ingi viðraði þessa hugmynd sína í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina og velti því upp hvort meiri ávinningur fælist í því en að láta arðgreiðslurnar renna í þjóðarsjóð.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðarsjóðs og fyrir Alþingi liggur frumvarp þess efnis, þar sem meðal annars er kveðið á um að arðgreiðslur Landsvirkjunar skuli renna þangað, en sjóðurinn er einkum ætlaður sem vörn gegn þjóðhagslegum áföllum.
„Þessi hugmynd samgönguráðherra hefur ekki verið rædd í ríkisstjórn, en hins vegar er það rétt hjá Sigurði Inga að við tókum ekki meira afgerandi ákvarðanir í samgönguáætlun en svo að ráðherra yrði falið að útfæra fjármögnun fyrir frekari framkvæmdir,“ segir Katrín.
Spurð um hugmynd Sigurðar Inga um að arður Landsvirkjunar renni til vegakerfisins segist Katrín líta svo á að ákveðin lína hafi verið sett fyrir þjóðarsjóðinn.
„Við höfum hins vegar rætt hvort möguleiki sé að nýta eignatekjur í meiri mæli en hefur verið gert. Við erum að setja gríðarlega fjármuni inn í samgöngumálin sem eru tengdar eignatekjum okkar af fjármálafyrirtækjum og erum opin fyrir því að skoða fleiri slíkar leiðir.“
„Með nýsamþykktri samgönguáætlun er kominn leiðarvísir, en henni fylgir líka að það verði lögð fram ný áætlun í haust. Það er auðvitað vilji til þess að gera meira en þar er kveðið á um.“