Mannleg mistök ollu því að Þjóðskrá Íslands afhenti Reykjavíkurborg upplýsingar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara, segir Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands.
Í úrskurði Persónuverndar um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, segir að stofnunin hafi brotið gegn lögum um persónuvernd.
Þá segir að Þjóðskrá Íslands hafi „ekki gætt að meginreglu þágildandi persónuverndarlaga“ þegar stofnunin afhenti borginni gögn um kjósendur. Jafnframt segir í ákvörðunarorðum Persónuverndar að „vinnsla Þjóðskrár Íslands á persónuupplýsingum sem fól í sér afhendingu upplýsinga til Reykjavíkurborgar [...] samrýmdist ekki lögum“.
„Við tökum undir það sem kemur fram um þátt Þjóðskrár Íslands í málinu. Fyrir mistök voru upplýsingar um kyn og ríkisfang kjósenda afhent,“ útskýrir Ástríður sem segir mistökin hafa átt sér stað við úrvinnslu beiðni frá Reykjavíkurborg,að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.