Lækka laun bæjarfulltrúa um 15%

Samþykkt var af bæjarstjórn að lækka laun bæjarfulltrúa um 15%.
Samþykkt var af bæjarstjórn að lækka laun bæjarfulltrúa um 15%. mbl.is/Hjörtur

Samþykkt var einróma í bæjarstjórn Kópavogs í gær að lækka laun bæjarstjórnarfulltrúa um 15%, eða sem nemur 53.094 krónum. Fara laun fulltrúanna því úr 353.958 krónum í 300.864 krónur. Laun fyrir setu í öðrum nefndum og ráðum haldast hins vegar óbreytt. Laun bæjarfulltrúa hækkuðu síðast í fyrra, en þá voru þau hækkuð um 30%.

Greint er frá ákvörðun bæjarstjórnar í tilkynningu frá bæjarfélaginu, en þar er jafnframt tekið fram að laun bæjarstjóra hafi lækkað um 15% í júní á síðasta ári að ósk bæjarstjóra. Kom hún í kjölfar umfjöllunar um að laun bæjarstjórans höfðu hækkað um 612 þúsund krónur yfir árið, úr 1,9 milljónum upp í tæpar 2,5 milljónir. Með 15% lækkun væru laun hans því um 2,1 milljón.

Hafði Kópavogsbær áður fryst laun bæjarfulltrúa vegna umdeildra hækkana kjararáðs á þingfarakaupi í nóvember 2016, en sú ákvörðun hafði áhrif á laun bæjarfulltrúa í Kópavogi sem tóku mið af þingfarakaupi. Í stað þess að fylgja fordæmi kjararáðs var sett af stað endurskoðun á launakjörum bæjarfulltrúanna og var niðurstaða þess að laun bæjarfulltrúa myndu hækka um 30% í stað 44%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka