Skera úr um lögmæti kosninganna

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að beina því til …
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að beina því til dómsmálaráðuneytisins að meta lögmæti framkvæmdar sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík sem haldnar voru í fyrra. mbl.is/Hari

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að senda beiðni til dómsmálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir því að framkvæmd sveitarstjórnarkosninga 2018 í Reykjavík verður tekin til skoðunar og metið verður lögmæti þeirra. Hún tilkynnti fyrirætlun sína á Facebook í dag.

Í samtali við mbl.is segir Vigdís ákvörðunina koma í kjölfar fundar borgarráðs sem haldinn var í morgun. Þar var farið yfir úrskurð Persónuverndar um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands.

„Ég var að bíða eftir þessum fundi til þess að sjá hvaða málsbætur þessir aðilar hafa og það kom ekki neitt nýtt fram á fundinum sem breytir þeirri afstöðu minni að málið sé grafalvarlegt og aðför að lýðræðinu í Reykjavík,“ segir Vigdís.

Í umræddum úrskurði er sagt að kjósendur hafi fengið gildishlaðin skilaboð frá borginni samhliða hvatningu til þess að kjósa, í einu tilfelli hafi verið um efnislega röng skilaboð að ræða.

Vigdís segist ekki hafa sent dómsmálaráðuneytinu erindi enn þá vegna málsins, en ætlar að nýta helgina í að skrifa greinargerð vegna málsins og afhenda dómsmálaráðuneytinu erindi í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert