„Þeim er ekki stætt á að mismuna fjölmiðlum með þessum hætti og hunsa þannig stóran hóp á Íslandi sem talar ekki íslensku,“ segir Valur Grettisson, ritstjóri menningartímaritsins The Reykjavík Grapevine, um það skilyrði í frumvarpi að breytingu á fjölmiðlalögum, að fjölmiðlar sem hljóti styrki verði að bjóða upp á sitt efni á íslensku.
„Þetta er vandi sem snýr að viðhorfi ríkisstjórnarinnar til innflytjenda og til fjölbreyttrar samsetningar íslensks þjóðfélags,“ segir Valur í samtali við mbl.is. The Reykjavík Grapevine gerði alvarlegar athugasemdir í umsögn við frumvarpið.
Þar segir að krafa um íslenskt mál í fjölmiðluninni sé „beinlínis til höfuðs þessa jaðarsetta hóps, innflytjenda, og þeirra sem eiga ekki íslensku að móðurmáli“.
Til stendur sem sé að veita fjölmiðlum allt að 25% endurgreiðslur á rekstrarkostnaði úr ríkissjóði og er yfirlýst markmið frumvarpsins það, að auka fjölbreytni íslenskrar fjölmiðlaflóru. Í umræðu um þessar lagabreytingar er þó iðulega minnst á málverndunarsjónarmið svonefnd, það er, látið er að því liggja að þessar breytingar hafi jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir afdrif móðurmáls Íslendinga.
Auk The Reykjavík Grapevine gerir Iceland Review einnig alvarlega athugasemd við þetta skilyrði styrkjarins. Kjartan Þorbjörnsson, útgefandi Iceland Review, sem er í senn tímarit en einnig fréttaveita á netinu, segir í samtali við mbl.is að greina verði í sundur málverndarsjónarmið og sjónarmið um bætt, og fjölbreytt, rekstrarumhverfi fjölmiðla.
„Þessi lög eru til þess að tryggja fjölbreytta fjölmiðlun, að hún safnist ekki fyrir í fáeinum blokkum,“ segir Kjartan. Hann segir fréttaflutning Iceland Review samræmast þeirri viðleitni.
Það sé þannig aðeins eitt sem slær miðil hans út af borðinu: Tungumálið. „Að öðru leyti eru fréttirnar einvörðungu um íslensk málefni. Írónískt í þessari umræðu verður óhjákvæmilega sú staðreynd, að hlutfall erlendra frétta er mun meira á þeim miðlum sem flytja fréttir á íslensku en á hinum, hinum enskumælandi.“
„Lesendahópur Iceland Review er þá ekki bara „einhverjir túristar“,“ segir Kjartan, heldur „mjög stór hópur. Hópur, sem er hér, býr hér, vinnur hér og vill fylgjast með því sem er að gerast.“
Bæði Valur og Kjartan segja ekkert áhyggjuefni í sjálfu sér að ensk miðlun á íslensku efni kynni að færast í vöxt ef styrkir þar til yrðu að veruleika. Sem stendur eru það nánast einungis þeirra miðlar sem ástunda þessa iðju, að flytja íslenskar fréttir á ensku.
12% íbúa á Íslandi eru innflytjendur. Aðstæður þessa fólks eru á ýmsan veg en margir í þessum hópi vilja vita hvað er að frétta á Íslandi. Til þess eru þessir miðlar mikilvægir, segja þeir. Í þessu samhengi bendir Valur einnig á, að vafasamt kunni að reynast út frá lagalegum sjónarmiðum, að mismuna íslenskum fjölmiðlum, sem fjalla um íslenska þjóðmenningu, aðeins á grundvelli tungumáls, hvað þá þegar þeir þjóna eins stórum hópi.
Valur veltir fyrir sér hvað svona skilyrði eigi í rauninni að fyrirstilla og lætur í veðri vaka að þau séu í raun ekki nema orðin tóm. „Meginefni fjölmiðla hérlendis er og verður á íslensku. Hvernig eru það þá málverndarsjónarmið að hafna ensku, þegar engin hætta stafar af því að fjölmiðlar á ensku fari að skjóta upp kollinum eins og gorkúlur?“ spyr Valur.
„Ef það er á annað borð markmið hjá ríkisstjórn að gæta að íslensku, þá gæti það því öðru fremur falist í styrkjum til málfarsráðunauta, eða prófarkalesara, frekar en að hafna enskum fréttaflutningi,“ segir Valur. „Maður spyr sig hvort er hættulegra, menningartímarit á ensku, eða illa skrifuð frétt á Vísi?“
Valur segist loks bjartsýnn um að ríkisstjórnin taki mið af rökum þeirra, enda að hans mati varla lagaleg stoð fyrir öðru.