Félagssamtökin Verndum Víkurgarð, sem berjast fyrir friðlýsingu Víkurkirkjugarðsins í miðbæ Reykjavíkur, komu saman í Iðnó á laugardaginn og hvöttu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, til þess að ljúka friðlýsingu garðsins að austustu mörkum hans eins og þau voru skilgreind árið 1838.
Í viðtali í Silfrinu í gær lýsti Lilja því yfir að hún myndi kynna ákvörðun sína um friðlýsingu Víkurgarðsins síðdegis í dag og myndi fara eftir lögum um minjavernd. Harðvítugar deilur eru um framtíð svæðisins vegna byggingar hótels við hliðina á Fógetagarðinum þar sem Landsímahúsið stóð áður.
„Þetta er einn helgasti staður landsins, það er enginn vafi í mínum huga,“ sagði Lilja í viðtalinu. „En við erum auðvitað að fara yfir sjónarmið í þessu máli.“