Húsnæði fyrir flóttafólk mesta áskorunin

Blönduósbær hyggst taka við fjölskyldum á flótta frá Sýrlandi. Húsnæðisskortur …
Blönduósbær hyggst taka við fjölskyldum á flótta frá Sýrlandi. Húsnæðisskortur er mesta áskorunin. Jón Sigurðsson

Stærsti fyrirvari Blönduósbæjar við móttöku sýrlenskra fjölskyldna á flótta er að finnist nægilegt húsnæði, segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, í samtali við mbl.is. Sveitarstjórn bæjarins samþykkti í síðustu viku að að taka við flóttafólki samkvæmt beiðni frá félagsmálaráðuneytinu.

Ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma að taka á móti 75 kvótaflóttamönnum, þ. á m. hinsegin fólki úr flóttamannabúðum í Úganda og fjölskyldum frá Sýrlandi. „Þetta eru 25 sem fara á höfuðborgarsvæðið og fimmtíu sem eru fjölskyldufólk sem skiptist milli Blönduóss annars vegar og Hvammstanga hins vegar,“ útskýrir Valdimar.

Hann segir húsnæðisþáttinn enn vera stærsta verkefnið í sambandi við móttöku fólksins. „Eftir nánari könnun þá er töluvert mikið í byggingu og við teljum okkur ráða við það á þessum tíma.“

Valdimar segir sveitarfélagið meðal annars líta til samstarfs á svæðinu til þess að leysa húnæðisliðinn og að litið sé sérstaklega til Skagastrandar.

Öflugt samstarf

Hann segir sveitarfélagið hafa reynslu af því að taka á móti flóttafólki, en umgjörð móttökunnar muni vera efld með aðkomu félagsmálaráðuneytisins og Rauða krossins. Þá verður ráðinn sérstakur verkefnastjóri til þess að sjá um verkefnið.

Haldinn verður íbúafundur 25. febrúar þar sem farið verður yfir helstu þætti verkefnisins, enn er þó nokkuð eftir af undirbúningi að sögn Valdimars. „Við eigum meðal annars eftir að finna stuðningsfjölskyldur.“

Svæði í sókn

„Á síðasta ári hefur Blönduóssvæðið verið að taka við sér eftir áratug í vörn. Hér er verið að byggja gagnaver og vantar í þjónustu- og sérfræðistörf. Við teljum að það sé næg atvinna á svæðinu,“ segir sveitarstjórinn spurður um atvinnutækifæri fólksins sem væntanlegt er.

Hann segir mikla samstöðu um móttökuna í sveitarfélaginu. „Það er yfirgnæfandi meirihluti sem tekur þessu vel og er reiðubúinn til þess að styðja við þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert