„Fundirnir gengu heilt yfir ágætlega. Það voru misjöfn viðbrögð við einstaka þáttum og áherslur misjafnar eftir því við hverja var rætt hverju sinni,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við blaðamann mbl.is fyrir utan Stjórnarráðið.
Þar fundaði hann með aðilum vinnumarkaðarins ásamt þremur öðrum ráðherrum úr ríkisstjórninni.
„Við freistuðum þess að gefa samantekt á þeirri aðkomu sem við teljum að stjórnvöld geti haft að kjarasamningum, svo sem varðandi húsnæðismál, félagslega kerfið og skattamál,“ segir Bjarni, sem hyggst kynna tillögur um breytingar á skattkerfinu síðar í dag.
Aðspurður hvort tillögurnar nægi til þess að liðka fyrir kjarasamningum segir Bjarni það ekki gott að segja.
Ásamt Bjarna sátu fundina þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Fyrst funduðu ráðherrarnir með forsetum ASÍ, en Vilhjálmur Birgisson, varaformaður ASÍ og formaður Verkalýðsfélags Akraness, gekk út af fundinum og sagði í samtali við mbl.is að tillögurnar væru langt undir vætingum. Því næst funduðu ráðherrarnir með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og að lokum með fulltrúum BSRB, BHM og KÍ.
„Við eigum eftir að ræða tillögurnar við baklandið,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að fundi loknum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BSRB, sagði of snemmt að segja til um hvort tillögurnar komi til með að liðka fyrir kjarasamningum.