„Sonur minn lenti í að myndavélin á símanum hans virkaði ekki og var að hringja í mig grátandi því vagnstjórinn ykkar henti honum út og sagði honum bara að labba.“ Þannig hefst Twitter-færsla hjá Jóhannesi Bjarnasyni en 11 ára syni hans var hent út úr strætisvagni í dag vegna þess að myndavélin á símanum hans var biluð.
Myndavélin er tengd strætó-smáforritinu og eiga farþegar að sýna mynd af sér þegar þeir ganga inn í vagn. Kona bendir á, í athugasemd við færslu Jóhannesar, að hún hafi tvívegis lent í því að myndavélin á hennar síma virki ekki. „Ekkert mál. Ekki hent út. En ég er ekki barn sem auðvelt er að níðast á,“ skrifar konan.
„Mér finnst EKKI í lagi að henda 11 ára gömlu barni útur vagni hjá ykkur útaf einhverri fáránlegri virkni í appinu ykkar, hann er með gilt kort, og er með símann og það á að vera fjandans nóg til að sýna að hann sé valid farþegi,“ skrifar Jóhannes og bendir á að sonur hans hafi verið að fara inn í leið 11 klukkan 14.21 hjá Melaskóla.
Strætó baðst afsökunar á Twitter, þar sem segir að vilji sé til þess að vagnstjórar sýni ákveðna tillitssemi ef tækniörðugleikar eru að valda fólki vandræðum í smáforritinu, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
Jóhannes segir í samtali við mbl.is að einnig hafi verið hringt í hann frá Strætó og hann beðinn afsökunar.
„Hann bauðst til að gefa stráknum plastað kort ef þetta gerðist aftur. Hann sagði líka að það væri einhver verktaki sem sæi um leið 11 og að þetta væri ekki á vegum Strætó,“ segir Jóhannes. Hann bætir því við að honum þyki myndavélanotkunin í smáforritinu fáránleg:
„Þetta apparat með þessa myndavél er hlægilegra en allt sem ég veit held ég. Að skýla sér bak við að þetta þurfi að vera svona því að fólk eigi að geta falsað appið. Þú getur verið með dagsetningu og blikkandi klukku. Þetta þarf ekki að vera flóknara,“ segir Jóhannes.
Sonur hans komst upp í næsta vagn, 15 mínútum síðar, þar sem hann gat útskýrt tæknivandamálið fyrir vagnstjóranum. Jóhannes segir að atvikið hafi ekki sett strákinn út af laginu:
„Hann var bara pirraður.“