„Með eggin í andlitinu“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði mistök ríkisstjhórnarinnar í tengslum við …
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði mistök ríkisstjhórnarinnar í tengslum við kjaraviðræðurnar hafa verið í væntingastjórnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sakaði ríkisstjórnina um að hafa reynt að gera hlut sinn í lausn kjaraviðræðnanna sem mestan og voru það mistök. Þetta kom fram í ræðu þingmannsins á Alþingi í dag. Þá sagði hann einnig að kjaradeila sem beinist að stjórnvöldum vera brot á vinnulöggjöf.

„Það má heldur ekki vera svo að stjórnmálaflokkar hvort sem er í meirihluta eða minnihluta séu að nýta sér kjaradeilur í pólitískum tilgangi. Þessi ríkisstjórn hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að upphefja sig og mikilvægi sitt við lausn þeirrar stöðu sem ríkir á vinnumarkaði og situr með eggin í andlitinu,“ sagði Þorsteinn.

Þá sagði hann viðbrögð verkalýðsfélaganna við tillögum ríkisstjórnarinnar um skattkerfisbreytingar fyrirsjáanlegar þar sem ríkisstjórnin hefði að hans mati ýtt undir miklar væntingar verkalýðsfélaganna til breytinga. Mistök ríkisstjórnarinnar séu að finna í væntingastjórnun hennar.

„Það kemur á óvart ef væntingar í skattamálum stóðu til einhvers allt annars en við höfum sagt allan tímann,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra í samtali við mbl.is í gær.

Pólitísk kjaradeila brot á lögum

Þorsteinn sagði tillögur ríkisstjórnarinnar þó ekki ónothæfar og að þær væru áhugaverðar. „Það má vel vinna með þessar hugmyndir og skoða aðrar útfærslur sem kæmu tekjulægstu hópunum enn betur til góða.“

„Það er rétt að minna á að kjaradeilur eiga ekki og mega ekki lögum samkvæmt beinast að stjórnvöldum. Kjaradeila sem beinist fyrst og fremst að Alþingi og ríkisstjórn en ekki að vinnuveitendum er pólitísk kjaradeila og sem slík brot á vinnulöggjöfinni,“ fullyrti hann í ræðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert