„Mig grunar að þetta sé einhvers konar framhaldsskólahrekkur,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans, en þegar nemendur mættu í skólann í morgun blöstu við þeim skemmdarverk sem sjá má á meðfylgjandi mynd.
Hjalti segir að svona lagað eigi sér stundum stað á milli skóla og sé væntanlega hugsað sem einhvers konar góðlátlegt grín en vitanlega verði fólk að þekkja eðlileg mörk í þeim efnum. Svona lagað sé auðvitað bara skemmdarverk.
„Við erum að reyna að hreinsa þetta,“ segir Hjalti. Unnið sé að því að hreinsa hellurnar og vegginn með háþrýstitækjum. Spurður hvort hann haldi að um varanlegar skemmdir sé að ræða sem ekki náist að öllu leyti af segist hann vona ekki.
„Það má eiga von á einhverju svona á hverjum vetri. Krökkunum þykir þetta kannski saklaus hrekkur og þetta gengur svona oft á milli skóla. Þetta er oft í tengslum við Morfís-keppnir, Gettu betur eða íþróttakeppnir,“ segir Hjalti.
Spurður hvernig brugðist sé við svona segir Hjalti að reynt sé að komast að því hverjir hafi staðið fyrir þessu. „Þetta eru oft einhverjir hópar innan skólanna. Þetta á að vera græskulaust gaman en unglingar átta sig ekki alltaf á því hvenær þetta fer yfir mörkin og er orðið skemmdarverk.“