„Hálfgerð blekking“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það ekki til eftirbreytni …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það ekki til eftirbreytni hjá stjórnvöldum að kynna tillögur án útskýringa. mbl.is/​Hari

„Það er mikill misskilningur að þetta sé einhver kjarabót til láglaunafólks. Það er sama krónutalan upp allan stigann, þannig að þær dylgjur eiga bara ekki rétt á sér,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is innt álits á skattatillögum ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að til standi að frysta persónuafslátt í þrjú ár.

Þá segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is tillögur ríkisstjórnarinnar vera hálfgerða blekkingu þar sem aðeins verður 2.250 króna skattalækkun frá 1. janúar 2020.

Ekki lengur vafi um persónuafsláttinn

Nokkur vafi hefur verið um tillögur ríkisstjórnarinnar með tillit til útreikninga og persónuafsláttinn og sagði Drífa í samtali við mbl.is í gær að erfitt væri að fá útreikninga til þess að ganga upp.

„Eina leiðin til þess að við fáum þetta til að ganga upp er að það eigi ekki að breyta per­sónu­afslætti og láta hann rýrna.“

Tillögur ríkisstjórnarinnar að skattkerfisbreytingum vegna yfirstandandi kjaraviðræðna miða að því að frysta afsláttinn þar til nýtt kerfi verður innleitt til grundvallar breytingum á persónuafslætti. Þetta staðfesti fjármálaráðuneytið í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

„Heildstætt erum við gagnrýnin á það að skattkerfið sé ekki notað sem jöfnunartæki. Við höfum svo sem ekki tekið afstöðu til annars, en það má benda á það að við vorum með í okkar kröfugerðum mikinn þunga í að hækka persónuafslátt,“ segir Drífa.

Þegar mótaðar voru skattatillögur ASÍ var frekar horft til fjölþrepaskattkerfis útskýrir hún. „Það er búið að gefa afslátt af þeim kröfum okkar að hækka persónuafslátt, þetta rímar frekar illa við það.“

Varðandi tillögurnar segir hún verkalýðshreyfinguna einna mest gagnrýna gagnvart því að ekki standi til að veita frekari skattalækkanir til lágtekjuhópa, að sögn Drífu.

Gat ekki verið neitt annað

„Það er bara mjög gott að fá þetta staðfest núna, því það hafa margir hagfræðingar verið að klóra sér í hausnum yfir því að tölurnar stemma ekki,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, spurður hver viðbrögð hans eru við því að til standi að frysta persónuafsláttinn í þrjú ár.

„Það er náttúrulega ekki til eftirbreytni hjá stjórnvöldum að kynna tillögur án útskýringa sem leiða til þess að tölurnar stemma ekki, en nú er komin skýring á því og það gat ekki verið neitt annað en þessu líkt,“ segir hann.

Vilhjálmur segir einnig ástæðu til þess að skoða skattabreytingarnar með hliðsjón af innleiðingaraðferð þeirra. Hann bendir á að skattalækkun með nýju lægsta þrepi eigi að gerast í áföngum yfir þrjú ár á tímabilinu 2020 til 2022.

„Hvað þýðir það? Jú það þýðir að skattalækkun per einstakling er 2.250 krónur á mánuði fyrsta janúar 2020,“ segir hann. „Þetta er nánast hálfgerð blekking.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert