Hamingjusamt fólk verður sjaldnar veikt, fær til að mynda sjaldnar kvef og lifir yfirleitt lengur. Eins aukast lífslíkur fólks um sjö ár ef það reykir ekki. Þetta segir Vanessa King, sérfræðingur um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum. Hún var aðalfyrirlesari á morgunfundi VIRK, embættis landlæknis og Vinnumálastofnunar í morgun. Yfirskrift fundarins var hamingja á vinnustöðum er alvöru mál og var þar rætt um mikilvægi þess að auka vellíðan á vinnustöðum.
Hún segir konur vera líklegri til þess að upplifa kulnun í starfi heldur en karlar. „Hver er kostnaður samfélagsins af þessu?“ spyr King og ræddi meðal annars um áhrif þess á líkamlega sem og andlega heilsu fólks. Hún segir að hamingja sé komin við hlið framleiðni hjá ýmsum ríkjum. Því sífellt fleiri þjóðarleiðtogar geri sér grein fyrir mikilvægi hamingju.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá embætti landlæknis, kynnti á fundinum rannsóknir sínar á hamingju fólks á Íslandi en hún segir, líkt og King, að fólk sem er í vinnu sé yfirleitt hamingjusamara en það fólk sem er án atvinnu. Eins eru giftir yfirleitt hamingjusamari en ógiftir enda skipta náin tengsl miklu þegar kemur að hamingju. Allt bendir til þess að hamingjan sé meiri meðal þeirra sem eru komnir á eftirlaun en þeirra sem enn eru á vinnumarkaði.
Eitt af því sem hefur mest neikvæð áhrif á hamingju fólks á Íslandi eru fjárhagsáhyggjur. Dóra Guðrún segir að þar sé hún ekki að tala um tekjur heldur áhyggjur af fjárhag því meðal þeirra hamingjusömustu eru þeir sem eru í tekjulægsta hópnum á meðan fólk sem er í tekjuhæsta hópnum sé líka óhamingjusamt.
Ísland er í fjórða sæti yfir hamingjusömustu þjóðir heims og hefur undanfarin ár verið ofarlega á lista yfir hamingjusamar þjóðir.
Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri hjá VIRK, kynnti á málþinginu átakið Velvirk en það hefur verið áberandi í auglýsingum undir fyrirsögninni: Er brjálað að gera?
Hún talaði meðal annars um að fólk þarf að vera þar sem það er statt, ekki fjarstatt, því þá ertu ekki að sinna því sem þú átt að vera að sinna, svo sem barninu þínu. Eins minnti hún á að það þurfa ekki allir að fara í landvættaverkefnið heldur sé alveg í lagi að stunda venjulega leikfimi - símalaus.
Vísaði hún í færslu Steinunnar Gestdóttur, prófessors í sálfræði við Háskóla Íslands og aðstoðarrektors kennslumála og þróunar við skólann, á Facebook sem hefur vakið mikla athygli. Þar bendir Steinunn á ýmis atriði sem vert er að hafa í huga.
Háskólamenntuðum einstaklingum í aðildarfélögum BHM sem leita eftir þjónustu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hefur fjölgað stórlega á seinustu árum. Algengasta ástæða þess að BHM-fólk leitar til VIRK er geðræn vandamál en stoðkerfisvandamál eru einnig algeng. Konur eru í miklum meirihluta einstaklinga sem eru í þjónustu hjá VIRK. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag.
Mikil fjölgun varð á nýjum þjónustuþegum VIRK milli áranna 2017 og 2018 og var hún öll vegna aukinnar eftirspurnar háskólamenntaðs fólks eftir þjónustu sjóðsins, að því er segir í umfjöllun BHM um þessar upplýsingar, sem fram komu í erindi Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK, á upplýsinga- og samræðufundi BHM.
Tölur um menntunarstig nýrra einstaklinga hjá VIRK sýna að á sama tíma og nokkuð hefur fækkað í hópi þeirra sem eru með grunnskólamenntun eða minni menntun frá árinu 2015 hefur fjöldi fólks með háskólanám að baki vaxið stórum skrefum eða úr 317 árið 2015 í 568 í fyrra, sem er hér um bil orðinn jafn stór hópur og þeir sem lokið hafa grunnskólanámi. Fyrir fjórum árum voru grunnskólamenntaðir hins vegar tvöfalt fleiri en fólk með háskólamenntun í þessum hópi nýrra einstaklinga hjá VIRK.