„Það hefur lengi verið ljóst að það væri alvarleg staða, langt á milli aðila í langan tíma og það er erfitt að segja að það komi á óvart að við höfum ratað á þennan stað,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is inntur álits á stöðunni á vinnumarkaði.
Efling, VR, VLFA og VLFG slitu í dag samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins og boða verkfallsaðgerðir.
„Ég er enn þeirrar skoðunar að það eru öll ytri skilyrði á Íslandi til þess að menn nái góðri niðurstöðu um að bæta kjörin á næstu árum. Það er bara ekki hægt að taka meira út en innistæða er fyrir,“ segir hann.
Ráðherrann segir að öðru leyti ótímabært að spá í framhaldið, enda hafi ríkið ekki beina aðild að kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins.