Starfsgreinasambandið telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum við Samtök atvinnulífsins vegna endurnýjunar kjarasamninga og hefur ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Starfsgreinasambandinu sem send var út rétt í þessu.
Samningsaðilar hafa átt tæplega 80 fundi um sértæk mál síðan viðræður hófust í október, auk 30 funda viðræðunefnda SGS og SA um forsendur nýs kjarasamnings. Í tilkynningu segir að ýmislegt hafi þokast áfram í einstökum málum á undanförnum vikum. Þrátt fyrir það sé það mat viðræðunefndar SGS að nú verði ekki komist lengra nema með aðkomu ríkissáttasemjara.
Starfsgreinasambandið fundaði með Samtökum atvinnulífsins í gær og aftur nú síðdegis. Fram hafði komið að sambandið vildi fá skýrari svör frá SA, en samninganefnd SGS var ekki bjartsýn á stöðuna eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um tillögur sínar á þriðjudag.