Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og baðst afsökunar á framgöngu sinni í umræðum í þinginu í gærkvöldi.
Vísaði hann þar til orðaskipta sem hann átti við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, í umræðum um frumvarp þingmanna Miðflokksins um fæðingarstyrki vegna ættleiðingar sem ætlað er samkvæmt greinargerð að styðja konur sem taka ákvörðun um að gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu þar sem þær hafi til þessa ekki notið sérstakrar aðstoðar.
Þorsteinn og Þórhildur ræddu þar um þungunarrof og hversu erfið sú ákvörðun væri fyrir þær konur sem tækju ákvörðun um slíkt. Spurði Þorsteinn Þórhildi hvort hún hefði sjálf persónulega reynslu af því hversu erfið sú ákvörðun væri. Þórhildur spurði á móti hvort Þorsteinn legði það í vana sinn að spyrja aðra þingmenn um heilsufarssögu þeirra.
Þórhildur gagnrýndi framgöngu Þorsteins á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Þorsteinn sagði í ræðustól Alþingis í dag að hann hefði notað óviðurkvæmilegt orðalag í umræðunum og bað Þórhildi afsökunar á því. Þorsteinn sagði að þingmenn ættu að umgangast hvorir aðra af virðingu og kurteisi og á hvort tveggja hefði skort hjá honum.