Kosið verði aftur í þingnefndir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir tvo gríðaröfluga þingmenn hafa …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir tvo gríðaröfluga þingmenn hafa bæst í hóp Miðflokksins með inngöngu Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar í flokkinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, treystir því að flokksmenn taki vel á móti Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni, sem tilkynntu fyrir skömmu að þeir hafa ákveðið að ganga til liðs við Miðflokkinn. Í bréfi sem hann sendir til allra Miðflokksmanna kemur einnig fram að Miðflokkurinn ætli að fara fram á að kosið verði aftur í nefndir Alþingis „svo að nefndaskipan taki mið af breyttum hlutföllum í stjórnarandstöðu og á þinginu í heild auk þess að gera aðrar ráðstafanir sem af þessu leiða.“

Í bréfinu segir Sigmundur að með inngöngu Karls Gauta og Ólafs í flokkinn „bætast tveir gríðaröflugir þingmenn við þingflokk okkar sem verður sá þriðji stærsti á Alþingi og stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar“.

Miðflokkurinn fékk sjö þingmenn kjörna í alþingiskosningunum haustið 2017 og eru þeir því orðnir níu eftir að Karl Gauti og Ólafur gengu til liðs við flokkinn. Þeir hafa setið sem óháðir þingmenn frá því í desember eftir að þeir voru reknir úr Flokki fólksins í kjölfar þess að sam­ræður sem þeir tóku þátt í á Klaust­ur bar í lok nóv­em­ber voru gerðar op­in­ber­ar.

Sigmundur segir að flokkurinn muni þó fyrst og fremst „hefja saman sókn og baráttu fyrir þeim mörgu stóru tækifærum sem hafa verið vanrækt í íslenskum stjórnmálum, betri stjórnmálum og betra samfélagi“.

Pólitískir bandamenn frá síðustu kosningum

Þá segir Sigmundur að þingmennirnir tveir hafi verið pólitískir bandamenn Miðflokksins á Alþingi strax að loknum kosningum og að mikill samhljómur hafi verið milli þeirra og þingmanna flokksins. „Við höfum flutt mál saman og verið traustir samherjar í stjórnarandstöðu. Raunar höfum við Ólafur verið samtaka í baráttu fyrir stórum málum á borð við endurskipulagningu fjármálakerfisins í um áratug og ég náði strax mjög vel saman við Karl Gauta sem var sessunautur minn á fyrsta þingi þessa kjörtímabils og samherji í stórum prinsippmálum,“ skrifar Sigmundur.

Að lokum tekur Sigmundur fram að í Miðflokknum sé í senn einstaklega góður hópur samherja og vina og afl sem getur leitt mikilsverðar framfarir fyrir Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka