Fundað verður í höfuðstöðvum VR í hádeginu þar sem samninganefnd félagsins mun fara yfir aðgerðaáætlun þess í kjölfar þess að kjaraviðræðum félagsins ásamt Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins var slitið í gær. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.
Spurður hvort aðgerðaáætlun VR verði kynnt í kjölfarið segir Ragnar að ekki hafi verið tekin ákvörðun í þeim efnum. Aðspurður segist hann ekki telja að áætlunin verði kynnt í dag en af því gæti hins vegar orðið um helgina. Segir hann að félögin fjögur ætli að funda stíft vegna málsins um helgina. VR ætli þó ekki í allsherjarverkfall.
Ragnar segir að þær aðgerðir sem felist í aðgerðaáætlun VR muni ekki hafa mikil áhrif á daglegt líf félagsmanna. „En þær munu bíta fast þar sem þær þurfa að bíta.“ Spurður hvort kröfugerð félaganna gangi út á 70-85% launahækkun til félagsmanna á næstu þremur árum, líkt og fram kemur í Fréttablaðinu í dag, vísar Ragnar því á bug.
„Þetta er bara óábyrgð og galin framsetning,“ segir Ragnar og segir fjarri lagi að kostnaðarmat vegna kröfugerðar félaganna sé á þessum nótum. Talað sé um ábyrgar kröfur en tilboð SA, upp á 2,5%, nái ekki einu sinni að halda í við verðbólguspá. Hækkanir til stjórnenda innan atvinnulífsins séu í engu samræmi við þetta.
„Maður spyr sig í hvaða veruleika þetta fólk býr ef það ætlast til þess á sama tíma að fólkið okkar í VR samþykki kaupmáttarrýrnun. Hvar er ábyrgðin þar? Við sættum okkur ekki við það,“ segir Ragnar. Kostnaðarmatið vegna krafna félaganna sé aðeins brot af því sem haldið er fram í frétt Fréttablaðsins og SA hafi haldið fram.
Ragnar vísar ábyrgðinni á stöðunni á SA. Tilboð þeirra hafi einfaldlega verið algerlega óaðgengilegt. „Þeir komu ekki einu sinni með móttilboð. Þeir ætla ekki að bjóða annað en kaupmáttarrýrnun fyrir okkar félagsmenn. Því er bara auðsvarað. Ef þeir ætla ekki að koma úr þessum glerturni sínum þá fá þeir bara yfir sig átök.“