„Ekkert óeðlilegt“ við kröfu Miðflokks

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur óskað eftir því að kosið verði …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur óskað eftir því að kosið verði aftur í nefndir Alþingis. Mynd af þingflokksfundi hans við félaga síðan í desember. mbl.is/​Hari

Miðflokkurinn virðist þurfa 22 þingmenn með sér til þess að ákveðið geti verið að breytt skipan í nefndir Alþingis verði tekin upp. Það er „ekkert óeðlilegt“ við að flokkurinn óski eftir þessum breytingum, segir stjórnmálafræðiprófessor.

Það er þó ekki sjálfgefið að þingheimur verði við þessari kröfu Sigmundar, segir Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Miðflokkurinn er nú stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni, með 9, eftir að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við hann.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fær samkvæmt Ólafi fyrstur að velja sér formennsku í nefnd. Endurskipun í nefndir Alþingis gerði Miðflokknum því kleift að koma manni að í formennsku þeirrar nefndar sem hann kysi.

Þessu samkvæmt fékk Samfylkingin þann heiður að velja sér formennsku í nefnd eftir síðustu Alþingiskosningar en hann mældist í lokin með 12,1% fylgi, 7 þingmenn, og Miðflokkurinn með 10,4% fylgi, einnig 7 þingmenn.

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar, er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis en sú er ein tveggja nefnda Alþingis sem hefur formann úr minnihluta: hin er velferðarnefnd og formaður hennar er Halldóra Mogensen Pírati. Miðflokkurinn hefur ekki formennsku í neinni nefnd sem stendur en Sigmundur boðar breytingu þar á, alla vega breytingu á nefndarskipaninni í heild.

Ríkisstjórn Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks möguleg

Ólafur telur veru þingmannanna tveggja í Miðflokknum ekki skipta sköpum fyrir ástandið inni á þinginu. Hann bendir þó á, að Miðflokkurinn sé nú orðinn það stór, að hann, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gætu þrír myndað meirihlutastjórn ef svo bæri undir, þ.e. ef sitjandi ríkisstjórn spryngi án þess að gengið yrði til kosninga.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Pólitískt er það samt ekki líklegt,“ segir Ólafur, „en það er tölfræðilegur möguleiki, þó hann sé langsóttur.“ Saman eru flokkarnir með 34 þingmenn, sem stendur.

Að lokum, hvort landsmenn eigi þessu að venjast, að menn skipti á milli flokka segir Ólafur að ekkert sé heldur óeðlilegt við það, eins og dæmin sanna. Þingmenn séu eftir allt engu háðir nema sinni eigin samvisku, samkvæmt stjórnarskrá. Og flokkaskipti inni á þingi hafi tíðkast allan lýðveldistímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert