Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, nú þingmenn Miðflokksins, fengu hvor um sig 300.000 króna greiðslur frá Alþingi 1. febrúar fyrir sérfræðiaðstoð. Þar sem þeir höfðu með sér samstarf á meðan þeir stóðu utan þingflokka létu þeir upphæðina, 600.000 kr., renna inn í félag sem þeir stofnuðu utan um þetta.
„Þessi peningur liggur að mestu óhreyfður,“ segir Ólafur Ísleifsson í samtali við mbl. Hann segir þó eitthvað af þessu hafa farið í sérfræðiþjónustu og eitthvað enn minna í fundarkostnað.
Ólafur gaf ekki upp um hvers kyns sérfræðiþjónustu var að ræða en kvaðst mundu gera grein fyrir ráðstöfun þessa fjár við þar til gerð yfirvöld, þegar þar að kæmi. Sú greinargerð yrði þó í almennum efnisflokkum, frekar en einstökum liðum. „Mér finnst ekki tilefni til þess á þessu stigi,“ sagði hann, það er, til þess að gera grein fyrir þessu lið fyrir lið.
Greiðslurnar eru í samræmi við reglur um greiðslur skrifstofu Alþingis til þingflokka sem kveða á um, að þingmenn utan þingflokka fái greidda eina „einingu“ eins og það er kallað í lögum um framlög ríkissjóðs til þingflokka. Þá er miðað við fjölda í hverjum þingflokki í upphafi ársfjórðungsins, sem var að þessu sinni 1. janúar.
Við það að þeir gangi til liðs við þingflokk Miðflokksins verða greiðslurnar til þeirra færðar til Miðflokksins, sem hlýtur þannig auknar 2,4 milljónir í styrki frá ríkissjóði á ári. Þessir styrkir eru greiddir ársfjórðungslega, 300.000 krónur á einingu, þ.e. þingmann.
Flokkur fólksins fær áfram tvær einingar, 600.000kr., fyrir þingmenn sína tvo en fær þá einnig eina einingu fyrir það eitt að vera starfandi þingflokkur, samtals 900.000 kr. hvern ársfjórðung. Við brottrekstur Ólafs og Karls missti Flokkur fólksins því 40% af framlögum Alþingis til þingflokksins.