„Það er einfaldlega rangt, að kjörin hjá þeim félagsmönnum Eflingar sem starfa í ferðaþjónustunni séu eitthvað verri en hjá öðrum félagsmönnum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir að þannig sé „bara ein ástæða fyrir því að ferðaþjónustan sé skotspónn þessara aðgerða: „Þar er hægt að valda sem mestu tjóni á sem skemmstum tíma.“
Fyrirhugað er verkfall í þrifum og frágangi á hótelum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum 8. mars. Kosning um það hefst á mánudaginn, á meðal 7-8.000 félagsmanna Eflingar.
Jóhannes segir ekki í höndum Samtaka ferðaþjónustunnar að afstýra „þessu plani sem þarna er komið í gang,“ heldur sé það sem geti afstýrt þessu, „að menn sjái að sér og setjist við samningaborðið“. Verkfallsaðgerðir fyrirhugaðar gangi þvert á það markmið að ná samningum.
Jóhannes segir að fréttir af fyrirhuguðum verkföllum spyrjist mjög hratt út. Hvers konar vandræði við bókanir eða uppfyllingu þeirra geti valdið því að fyrirtæki sem hugsi sér að koma hingað fari alvarlega að velta því fyrir sér hvort áhættan sé of mikil.
„Nú stendur bókunartímabilið fyrir sumarið sem hæst og ef menn sjá fyrir sér að eitthvað svona standi fram á vor, þá veldur það miklu vantrausti á greinina hér á landi,“ segir hann.
Hann segir að erlendar ferðaskrifstofur hafi bókaðar svonefndar blokkir hjá t.d. hótelum eða afþreyingarfyrirtækjum þannig að til reiðu sé pöntun fyrir hóp. Þessar blokkir eru þó óstaðfestar þar til nær dregur og ef menn frétta af verkföllum geti það gerst að þeir hætti við þegar þar að kemur.
Þannig hefur þetta að sögn Jóhannesar strax áhrif. Ferðaheildsala, stórar ferðaskrifstofur og fyrirtæki sem eru að koma hingað með hópa séu ekki ólíkleg til þess að hugsa sig betur um ef horfur eru á þá leið að ekki verði unnt að veita þá þjónustu sem samið er um, sökum verkfalla.
Jóhannes segir að svona aðgerðir hafi gríðarleg áhrif á alla ferðaþjónustuna, því hún sé mjög samtvinnuð atvinnugrein og að þetta valdi óvissu í henni gervallri.
„Árásir á ferðaþjónustuna eru árásir á samfélagið í heild sinni,“ segir Jóhannes. „Mikilvægi þessarar greinar í efnahagslífinu gerir það að verkum að tjón ferðaþjónustufyrirtækja er ekki bara tjón fyrirtækja sem slíkra heldur alls samfélagsins.“