Það hefur verið „vitlaust að gera“ í Sundlauginni á Akureyri í dag að sögn Kristínar Magnúsdóttur, vaktstjóra hjá Sundlaug Akureyrar. Starfsfólk laugarinnar hefur þurft að loka miðasölunni nokkrum sinnum í dag til þess að takmarka fjölda ofan í laugina.
Margt er af fólki í bænum um helgina, vetrarfrí er í mörgum skólum og þar að auki fer fram handboltamót í bænum þessa helgi. „Það er alveg vitlaust að gera. Þetta var hérna í morgun og svo núna stanslaust út úr dyrum síðan klukkan fjögur í dag,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. „Við erum búin að vera með lokað í tíu mínútur núna. Við komum ekki fleira fólki fyrir.“
Spurð út í fjölda sundlaugargesta í dag segir hún þá að minnsta kosti vel yfir þúsund. „Það er ofboðslega mikið af fjölskyldufólki og svo hafa handboltaliðin líka verið að koma,“ segir hún en veðrið á Akureyri hefur verið fínt í dag, átta stiga hiti.
„Þetta er erfitt þegar það koma allir í einu,“ segir Kristín létt í bragði spurð hvernig gangi að taka á móti öllum þessum fjölda. „En þetta hefur gengið vel í dag, það er bara undir það síðasta sem ég hef verið að loka afgreiðslunni í tíu, fimmtán mínútur í senn. Þetta hefur gengið mjög vel og sem betur fer hefur ekkert komið upp á.“